135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:18]
Hlusta

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér hugnast að taka upp nýtt starfsheiti fyrir ráðherra sem bæði kynin geta borið án þess að konur séu karlgerðar eða karlar kvengerðir. Orð spretta upp úr því umhverfi eða samfélagi sem þau verða til í. Á þeim tíma sem orðið ráðherra varð til var stjórnun landsins alfarið í höndum karla og því e.t.v. ekki svo skrýtið að orðið sem farið var að nota væri beintengt við karlmenn. Orð spretta hins vegar ekki einvörðungu upp úr samfélaginu heldur móta þau það einnig. Þannig getur orð eins og ráðherra, sem vísar með svo afdráttarlausum hætti til annars kynsins, hreinlega átt þátt í að móta samfélag okkar með þeim hætti að það verða nánast eingöngu karlar sem bera titilinn.

Það væri ansi mikil einföldun að halda því fram að breyting á orðinu ráðherra ein og sér verði til þess að jafna stöðu kynjanna og fjölga konum í embætti. En breytingin ætti að verða til þess að orðsins hljóðan ein og sér geri það ekki að verkum að maður sjái karlmann fyrir sér í embættinu frekar en konu.

Virðulegi forseti. Fyrir utan það að orðið ráðherra er meingallað út frá kynjajafnréttissjónarmiðum finnst mér það einnig stór galli á orðinu hve mikill drottnunarblær er á því og hvernig vísað er til stéttaskiptingar. Ég er herra yfir hjúum mínum t.d., mér finnst það eiga illa við. Ef á annað borð verður farið í þá vinnu að finna og taka upp nýtt starfsheiti fyrir ráðherra, sem ég vona að verði gert, fyndist mér að þá eigi ekki einvörðungu að horfa til þess að finna orð sem hentar báðum kynjum heldur einnig að finna orð sem hefur á sér annan blæ, laust við alla drottnunar- eða fyrirmannstilburði.