135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:20]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla nú ekki að skipta mér mikið af þessari umræðu af ákveðnum ástæðum en mér þykir þó undarleg sú röksemd bæði hv. flutningsmanns og síðasta hv. ræðumanns að á þessu orði „ráðherra“ sé sérstakur drottnunarblær eða yfirráðalykt. Orðin geta vissulega haft ákveðna merkingu í sjálfu sér og því er ekki að neita að „ráðherra“ hefur það, það er auðvitað karllegt orð. Herra á að sjálfsögðu í upphafi við karlmenn. En ég kem ekki auga á það að samsetningin ráðherra hafi sem slík yfir sér einhvern drottnunarblæ. Ráðið í ráðherra, sá liður orðsins, er ekki skyldur sögninni að ráða heldur er ósköp einfaldlega sama orðið og ráð sem við þekkjum í að gefa ráð og ráðgjöf o.s.frv. og á sér upprunann í því að í upphafi voru þetta ráðgjafar konungs eða annarra slíkra valdsmanna.

Það sem síðan gerist er það, eins og við þekkjum úr málfélagsfræði, að orðið sjálft tekur blæ af því sem það merkir og ef mönnum þykir drottnunarblær á orðinu ráðherra er það vegna þess að við höfum kannski hleypt ráðherravaldinu á Íslandi of langt og ég efast um að við leysum það — þó að það megi að sjálfsögðu ræða og skoða — með því að breyta um orð.