135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:23]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þá er sá misskilningur frá og það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að orðið herra hefur á sér slíkan blæ. Bæði er það sprottið úr karllegu umhverfi eða það átti við karlmenn og á enn við karlmenn eitt og sér. Síðan er það rétt að herra hefur í íslensku og reyndar nágrannamálum einnig þá notkunarvenju að það er notað um ráðamenn eða aðila og jafnvel hið æðsta vald því að stundum er Drottinn allsherjar nefndur herra í kristilegum ritum, textum og ritúali.

Á hinn bóginn er það svo að orð af þessu tagi, sérstaklega þegar þau eru samsett, taka blæ og lit af þeirri hefð sem þeim fylgir og í þessu tilviki held ég ekki að nokkrum manni detti í hug, eftir að konur gerðust ráðherrar og eru nú orðnar nokkuð margir eða margar, að orðið sé eingöngu karlkyns eða því fylgi einhver sérstök karlmerking. Ég hef ekki séð það. Mín ráð eru þau að þó að umræðan sé þörf þá sé þetta 103 eða 104 ára orð látið í friði.

Það má hins vegar rifja það upp að þetta var ekki það orð sem var notað í stjórnskipunarlögunum þegar ráðherraembættið var búið til á Íslandi heldur var það orðið ráðgjafi og kannski hefðum við átt að halda okkur við það á sínum tíma.

Að lokum þetta: Um þetta ræða menn hvort sem þeir hafa próf í íslensku eða ekki því að allir eiga tungumálið og allir hafa sama rétt á því að ræða um það og koma með breytingartillögur um notkun þess.