135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:26]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Aldrei þessu vant verður maður að taka tillit til þeirra sjónarmiða og skoðana sem hv. þm. Mörður Árnason setur fram og virða sérfræðiþekkingu hans hvað það varðar. Ég velti því fyrir mér, þegar ég skoðaði þessa tillögu til þingsályktunar, hvað vekti fyrir flutningsmanni að flytja tillögu sem þessa: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa breytingar á stjórnarskrá og lögum til að taka megi upp nýtt starfsheiti ráðherra.“ Í greinargerð eru svo engar hugmyndir um það hvaða annað starfsheiti gæti komið til greina, engar viðmiðanir eða annað sem í má ráða. Það hefði verið æskilegt að einhverjar hugmyndir eða hugleiðingar í þá veru hefðu fylgt.

Kvennabaráttan hefur sennilega óvíða verið jafnöflug og hér á landi, sem betur fer. Fólk skal — nú þorir maður ekki að segja „menn“ — við skulum ekki gleyma því að kvenréttindabaráttan er í raun spurning um mannréttindi en að sjálfsögðu erum við með í tungumáli okkar ýmsar kenningar og viðmiðanir sem höfða kannski til annars kynsins. Við getum þá líka velt því fyrir okkur hvort það sama gildi ekki um starfsheiti okkar, hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, hvort það að vera „háttvirtur þingmaður“ komi ekki til skoðunar með sama hætti og starfsheiti fyrir ráðherra. Það þarf þá einhvern fínni málskilning til þess að átta sig á einhverjum mismun hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Ef menn skoða norræna goðafræði, þaðan sem orðið „forseti“ er tekið, þá er það orð að sjálfsögðu karlkenning og á við um karl þó að enginn velti því fyrir sér í dag og það hafi enga innri þýðingu eða merkingu hvað það varðar hvort karl eða kona gegnir því embætti. Þegar sagt er „hæstvirtur utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir“ hvarflar ekki að nokkrum manni að kona gegni ekki því embætti eða að það rýri eitthvað hennar kyn eða setji hana í aðra stöðu en aðra ráðherra.

Ég velti fyrir mér orðinu „ritari“ sem flestir mundu segja að væri haft um hefðbundið kvennastarf en það vill nú einu sinni þannig til að við tölum almennt ekki um það lengur. Sem betur fer eru kynin farin að ganga í öll störf en það vill þannig til að „ritari“ er karlkynsorð og karlkenning. Samt sem áður hefur engum dottið í hug að velta því fyrir sér.

Í sköpunarsögunni var talað um að guð hefði skapað manninn í sinni mynd. Varðandi hugmyndafræði kvennakirkjunnar eða jafnréttiskirkjunnar var það spurningin um kynhlutverk guðs almáttugs og hvernig orðalagið „manninn í sinni mynd“ snerti þá hugmyndafræði eða hvort það skipti yfir höfuð nokkru máli.

Ég stóð aðallega upp til þess að taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kom inn á í lok ágætrar ræðu sinnar. Í jafnréttismálum og jafnréttisbaráttu skipta mörg önnur mál meira máli en það sem hér er til umræðu. Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta því að mér finnst umræðan þegar orðin of löng.

Brýnustu hagsmunirnir í þessum málum snúast ekki um orðið „ráðherra“, karl- eða kvenkenningu, háttvirta þingmenn, karl- eða kvenkenningu. Brýnustu hagsmunirnir snerta kjör láglaunakvenna í þjóðfélaginu, þeirra kvenna sem hafa fæstu málsvarana. Jafnvel þeir sem kenna sig við femínisma hafa látið hjá líða að sinna þeim málstað, þörfum og nauðsynlegu úrbótum sem þarf að koma á fyrir þann þjóðfélagshóp. Við eigum að eyða tíma okkar í slíkar umræður en ekki í ómótaðar hugmyndir þegar menn vita ekki einu sinni hvaða orð ætti að koma í staðinn fyrir það sem nú er.