135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:31]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það skemmtilega mál sem hér er rætt er bara til að auka á tilbreytinguna og velta fyrir sér hlutum sem menn eru gjarnir á að velta fyrir sér í tíma og ótíma.

Líklega var orðið herra fyrst notað í íslenskri tungu um 1600. Oftast tengdist það orðasambandinu herra Jesús en hefur síðan útfærst og orðið hluti af íslensku hvunndagsmáli sem teygir arma sína víðar og til að mynda í orðinu ráðherra. Það er mikill munur á þessu orði málfræðilega eða málfræðilegri merkingu þess og stöðu og því hvað það þýðir í hversdagsleikanum. Þar er það líking, myndræn líking sem stenst fyllilega án þess að menn séu að velta fyrir sér kyninu. Það er ekkert sem mælir á móti því að kona sé herra. Kona getur verið herra húss, herra verkefnis o.s.frv. án þess að vera karlkyns.

Það er kannski eitt orð sem gæti komið í stað orðsins ráðherra, sem líklega flestir gætu náð að sameinast um en kannski ekki endilega sátt af því að það orkar tvímælis, það er orðið „ráðríkur“. Það hefur a.m.k. tvær merkingar, að vera ríkur af góðum ráðum eða vera stjórnsamur um of, sem er allt annað. Það er í rauninni út í hött að velta svona hlutum fyrir sér sem eru orðnir alveg kirfilega fastir í málinu og hafa í rauninni aldrei truflað neitt nema kannski sérvisku fólks sem auðvitað getur verið og á rétt á sér í öllum áttum. En það má til að mynda nefna orðið „hetja“. Hetja er kvenkynsorð og þess vegna ætti það ekki að eiga við um karla. Karlmenn eru ekki svo ég viti til almennt að kveinka sér undan því að vera kallaðir hetjur en orðið er kvenkyns. Við þyrftum alveg eins að breyta því og mörgum öðrum ef við ætlum að fara að gera sérstakan greinarmun á þessu kynjalega séð.

Grundvallaratriðið er auðvitað það, virðulegi forseti, að menn og konur eru menn, þ.e. konur eru líka menn, og er kannski skilgreining sem ekki var lögð nein áhersla á fyrir nokkrum áratugum, það er ekki lengra síðan. En þetta er staðreynd málsins og skiptir öllu. Mér finnst bara gaman að þessu innleggi en ég er hræddur um að ýmsir karlmenn mundu kvarta yfir því ef þeir ættu ekki lengur kost á því að vera kallaðir hetjur, því að mörgum er í blóð borið að sækjast eftir slíku. Hægt er að finna ýmis orð sem eru jafnræð í þessu efni á báða bóga, til beggja kynja. Við höfum alltaf dáð hetjuskap og hann er auðvitað æskilegur bæði hjá konum og körlum en það er í rauninni rangt mál að tala um karlmenn sem hetjur en meiningin gildir auðvitað þó að hún standist ekki fullkomlega málfræðilega. Og það er þessi munur sem er á orðinu ráðherra, málfræðileg samsetning með tilliti til kyns og svo merkingarleg samsetning með tilliti til notkunar orðsins. Það eru mörg dæmi um þetta, til að mynda hjá Orðabók Háskóla Íslands þar sem vakin er athygli á þessu.