135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:45]
Hlusta

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Umræðurnar hér í dag sýna hvað fólk upplifir tungumálið á misjafnan hátt eins og fram hefur komið hjá þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni. Ég benti hv. þm. Árna Johnsen á það áðan í ræðu minni að hann ætti eflaust erfitt með að svara því ef hann væri kallaður frú Árni Johnsen vegna þess að það er merkingarlaus þvæla. Þess vegna er það merkingarlaus þvæla að kalla mig herra Steinunni Valdísi Óskarsdóttur. (Gripið fram í.) Þetta er kjarni málsins. Þetta snýst um það að kona getur ekki verið herra frekar en karl getur (Gripið fram í.) verið frú.

Hér hefur einnig verið talað um starfsheiti. Sagan sýnir okkur að stéttir sem áður voru hefðbundnar kvennastéttir, ég nefndi áðan leikskólakennara og fóstrur, ég get líka nefnt t.d. flugfreyjur en þegar karlar komu inn í þá stétt var starfsheitinu breytt hið snarasta vegna þess að karlar eiga afskaplega erfitt með að láta kvenkenna sig í starfsheitum, dæmin sýna það.

Það sem mér gengur til með þessari þingsályktunartillögu er að setja þetta mál á dagskrá og vonaðist ég satt best að segja til þess að við værum komin aðeins lengra í þessari umræðu árið 2008 en við vorum fyrir 15 árum þegar fyrst var mælt fyrir þessari tillögu. Þá varð hún almennt aðhlátursefni og sofnaði í nefnd. Ég vona að það verði ekki örlög þessarar tillögu núna en miðað við viðbrögð þeirra þingmanna sem þó hafa tjáð sig er ég ekkert allt of bjartsýn um að hún lifi.