135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

siðareglur opinberra starfsmanna.

317. mál
[17:59]
Hlusta

Rósa Guðbjartsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við tillögur að siðareglum opinberra starfsmanna sem miða að því að banna þeim hópi að kaupa sér kynlífsþjónustu eða þiggja kynferðislega greiða í vinnuferðum á erlendri grund.

Mér finnst þessi umræða og þessi tillaga eiginlega hálfkaldar kveðjur til opinberra starfsmanna og ekki síður kaldar kveðjur inn á þeirra heimili. Hvað er verið að gefa í skyn? Eru til einhver gögn eða upplýsingar um að opinberir starfsmenn séu í einhverjum mæli að kaupa sér kynlífsþjónustu erlendis? Það væri fróðlegt að fá að vita það.

Hv. flutningsmenn tillögunnar telja að með slíkum siðareglum mundi ríkisstjórnin stíga skref í baráttunni gegn mansali. Að leggja eitthvað af mörkum í baráttunni gegn mansali er fallegt og sannarlega göfugt markmið, nokkuð sem við getum öll verið sammála um. En hvort siðareglur fyrir opinbera starfsmenn sem þessar séu rétta leiðin til þess finnst mér mjög stór spurning.

Opinberir starfsmenn, hvort sem það eru alþingismenn eða aðrir, eru fullorðnir og sjálfráða einstaklingar, einstaklingar sem hafa eigin siðferðiskennd og samvisku. Verðum við ekki að treysta þeim, opinberum starfsmönnum eins og öðrum til að taka ákvarðanir um sjálfa sig og líf sitt?

Svo er líka, finnst mér, mjög stór spurning hvernig eigi eiginlega að fylgjast með því að svona siðareglum yrði framfylgt.