135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

siðareglur opinberra starfsmanna.

317. mál
[18:01]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lái ekki forseta að ruglast stöku sinnum í þessari kjánalegu skiptingu Reykjavíkurborgar í tvö kjördæmi (Gripið fram í.) sem við fáum vonandi að ræða ... já, hér síðar í dag og ég mun taka þátt í þeirri umræðu enda meðflutningsmaður að því ágæta máli sem hér liggur fyrir.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Rósa Guðbjartsdóttir spyr hvort það sé virkilega þörf á þessu og hvort hér sé verið að gefa eitthvað í skyn varðandi opinbera starfsmenn, hvort til séu gögn sem sýni að þess sé að vænta af opinberum starfsmönnum að þeir kaupi sér kynlífsþjónustu.

Því miður, hæstv. forseti, eru tilefnin næg. Gögnin eru til, já, og þau sýna að þeir sem kaupa sér vændi, hvort heldur er í heimalöndum eða á erlendri grundu eru karlmenn í mjög miklum meiri hluta á öllum aldri, úr öllum þjóðfélagsstigum þannig að ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa séð ástæðu til þess að setja reglur af þessu tagi.

Ég tel að það sé mjög útlátalítið fyrir íslensku ríkisstjórnina að setja reglur af þessu tagi áður en nokkurt mál er komið upp af því tagi eða sem tengst gæti hneyksli af þessu tagi því að ekkert okkar vill auðvitað sjá koma hér í fjölmiðlum einhverjar fréttir um að einhverjir Íslendingar, hvort sem þeir væru opinberir starfsmenn, þingmenn eða úr einhverjum öðrum stéttum, væru að kaupa sér kynlífsþjónustu á erlendri grund. Meðan við höfum ekkert dæmi um slíkt tel ég að það sé gott að setja reglur af þessu tagi. Tilmælin koma frá Norðurlandaráði. Þar hafa þau verið samþykkt, meðal annars af öllum fulltrúum íslensku sendinefndarinnar í Norðurlandaráði, þannig að ég geri ráð fyrir að þessi tillaga sé studd af mjög miklum meiri hluta þingmanna hér, að minnsta kosti hreyfði enginn íslenskur þingmaður neinum andmælum þegar tilmælin voru samþykkt hjá Norðurlandaráði.