135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

siðareglur opinberra starfsmanna.

317. mál
[18:03]
Hlusta

Rósa Guðbjartsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan veit ég að hugurinn sem þarna býr að baki er mjög góður og það er nokkuð sem við getum öll verið sammála um að vilja berjast gegn mansali. En ég ítreka það að í þessu tilfelli eins og í mörgu öðru verðum við að gera ráð fyrir því að fullorðið fólk, opinberir starfsmenn sem aðrir séu ábyrgir gerða sinna.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir segir: „Við þurfum að setja svona reglur áður en við fáum slæmar fréttir í fjölmiðlum eða öðru af einhverju sem gæti tengst þessu.“ Ég meina, hvar gætu svona siðareglur endað? Eigum við að setja þá siðareglur um ýmislegt annað sem fólk getur verið að gera sem ekki er kannski æskilegt, varðandi til dæmis eiturlyfjanotkun, of mikla áfengisnotkun eða hvað það kann að vera?

Ég ítreka að ég tel að opinberir starfsmenn, rétt eins og aðrir ábyrgir einstaklingar, eigi það við sig og sína í lífi sínu yfirleitt og sína samvisku hvað þeir gera á ferðum erlendis eða annars staðar. Ég ítreka það að ég hef mikla samúð með því sem að baki býr, baráttu gegn mansali, en efast stórlega um að þetta sé rétta leiðin.