135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

ræður og ávörp ráðamanna liggi fyrir á íslensku.

340. mál
[18:19]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er nú gott að menn rugli ekki saman dagskrárliðum hér á hv. Alþingi eins og stundum hefur brugðið við. Í fimmta dagskrárliðnum vorum við að fjalla um siðareglur opinberra starfsmanna, að ekki mætti kaupa kynlífsþjónustu á erlendri grund, og í kjölfarið kemur að ræður og ávörp ráðamanna liggi fyrir á íslensku sem væri náttúrlega ekki hægt að nota á erlendri grund. Það er svona gott aðhald í þessu, svo menn gantist nú aðeins.

Í fyrsta lagi þá fagna ég þessari tillögu. Hún er fullkomlega tímabær og hún er metnaðarfull. Á hverjum degi þurfum við að standa vörð um framgang og notkun íslenskrar tungu vegna þess að hún er náttúrlega lykillinn að sjálfstæði okkar inn í framtíðina. Hún er hvorki meira né minna en höfuðatriðið í sjálfstæði okkar inn í framtíðina.

Ýmsir íslenskir embættismenn og aðrir nota í sívaxandi mæli erlendar tungur, það er hætta sem víða kemur upp. Það er eins og það slævi stundum málnotkun í íslensku í þeim efnum. Ég lenti til að mynda í því fyrir fáum dögum að vera á fundi þar sem mjög virtur, háttsettur, opinber embættismaður flutti ágætiserindi um það mál sem var á dagskrá en sagði með stolti: Ég aldist upp í Reykjavík. Auðvitað hefði bremsan átt að virka sjálfvirkt en það kom engin leiðrétting og þetta stingur í stúf og á auðvitað ekki að eiga sér stað. Það er bara hluti af því sem verðum að gæta að rækta inn í framtíðina.

Fjölmiðlar í dag kynna ekki metnaðarfulla málnotkun. Margir fjölmiðlamenn tala vitlaust og leggja á vitlausar áherslur. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem fara fyrir og tala fyrir hönd þjóðarinnar, fyrir hönd stofnana og fyrirtækja, standi sérstakan vörð um íslenskunotkunina. Þó að eðlilegt sé að þeir tali erlend mál undir mörgum kringumstæðum, skiptir mjög miklu máli að til sé þessi túlkun, eftir atvikum útdráttur eða túlkun í heilu lagi. Það fer svolítið eftir því hvort menn fjalla um ræður eða ávörp eða evrópska efnahagssamninginn sem auðvitað fylgja með í endalausum þýðingum. Þó væri ástæða til því að við höfum tapað ýmsum hlutum og möguleikum varðandi framgang okkar mála af því að stuðst er við erlend mál sem menn skilja misjafnlega og sumir láta hjá líða að kryfja til mergjar þegar kemur að íslensku þýðingunni af því að það er of mikil vinna.

Ég fagna fyrst og fremst tillögu hv. þm. Marðar Árnasonar og Karls V. Matthíassonar og vona að hún gangi til enda og komist heil í höfn.