135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

ræður og ávörp ráðamanna liggi fyrir á íslensku.

340. mál
[18:23]
Hlusta

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Erindi mitt er eingöngu að þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu, þeim Árna Johnsen og Ólöfu Nordal. Ég hef tekið eftir því að þau hafa haldið hér uppi merki íslenskunnar með málflutningi og tillögugerð á þinginu og vil að þau viti að það er þakkað í samfélaginu.

Það er rétt hjá hv. þm. Ólöfu Nordal að fylgiskjal er með þingsályktunartillögunni þar sem getið er óþýddra ræðna og ávarpa á þremur vefsetrum, forseta Íslands, forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Það tekur til ræðna og ávarpa sem þar eru birtar fyrir árið 2007 nema að listi utanríkisráðherra miðast við hálft árið því að núverandi utanríkisráðherra tók við í maí, eins og menn vita.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að þar eru að vísu ýmsar ræður sem ekki eru afar mikilvægar og eru kannski fluttar formsins vegna en aftur eru þar aðrar sem ættu að liggja fyrir á íslensku og varða mjög merk mál.

Ég geri ráð fyrir að þegar menn settust yfir reglur um þetta yrðu erindi sem menn flytja af þessu tagi að einhverju leyti flokkuð niður þannig að gert yrði ráð fyrir heildarþýðingu á sumum ávörpum og ræðum en útdrætti úr öðrum eftir atvikum og mikilvægi. Ég tek undir það með hv. þm. Árna Johnsen að um sem allra flesta texta af þessu tagi þyrfti að vera sú regla að það væri að minnsta kosti til útdráttur þannig að menn gætu nálgast textann, gætu vitað um hvað hann fjallar. Síðan ætti réttarstaðan í raun og veru að vera þannig í tungumálum okkar hér í stjórnsýslu og samfélagi að menn geti þá fengið nánari skýringar eða jafnvel þýðingu eftir atvikum ef á þarf að halda.

Ég þakka þessa umræðu og vonast til að hún verði til nokkurs gagns fyrir það efni sem til stóð að fremja.