135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

útvarp frá Alþingi.

345. mál
[18:46]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til að taka undir tillöguna. Hún er í sjálfu sér ágætlega rökstudd en ég vil samt halda því til haga að auðvitað verðum við að íhuga mjög vel hversu mikinn kostnað við mundum leggja í þetta. Ég held samt sem áður að þrátt fyrir nokkurn kostnað sé mjög mikilvægt að hægt verði að útvarpa frá Alþingi með sem bestum hætti. Eins og kemur fram í greinargerðinni er það svo nú að mjög margir hafa aðgang að Alþingi í gegnum netið og eiga hægt með að komast inn í þær umræður sem hér fara fram með þeim hætti, en eins og hér er sagt eru ekki allir netvæddir og margt eldra fólk, sem gjarnan hefur mikinn áhuga á þeim málefnum sem við ræðum hér, yrði þakklátt fyrir að fá aðgang að umræðum í gegnum sín útvarpstæki.

Ég vildi einnig nefna þá sem eru á ferð um landið. Sjálf ferðast ég töluvert mikið í bíl um landið og hlusta mikið á útvarp þegar svo stendur á. Ríkisútvarpið næst nú á allflestum stöðum þó að við getum ekki alveg sagt að það sé alls staðar á þjóðvegakerfinu. Ég held að það væri ekki síst skemmtilegt fyrir þá sem eru að ferðast um í bílum að hafa möguleika á að hlusta á þessar umræður þó að við getum kannski verið sammála um að þær séu ekki allar jafnskemmtilegar en þó flestar mjög áhugaverðar. Ég ítreka að ég held að rétt sé að athuga hversu mikill kostnaður fylgir þessu. Þegar þetta var kannað fyrir nokkrum árum þótti okkur fylgja því ansi mikill kostnaður og menn töldu að ekki væri rétt að leggja í hann á þeim tíma. En með tæknibreytingum og öðru sem við erum nú að upplifa er hugsanlegt að þetta sé orðið ódýrara.