135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

útvarp frá Alþingi.

345. mál
[18:49]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Herra forseti. Ég held að sú tillaga sem hér er til umræðu sé mjög af hinu góða og ætti í rauninni fyrir margt löngu að vera komin í framkvæmd. Framgangur slíkrar tillögu mundi væntanlega verða til þess að málflutningur fjölmiðla af Alþingi yrði minna afbakaður og yrði minna háður geðþóttauppsetningu ýmissa fjölmiðlamanna og ugglaust yrði meira jafnræði í málum og kynningu þeirra sem er mjög æskilegt fyrir okkar litla þjóðfélag.

Ég vil þó vekja athygli á því að ég tel að tillagan gangi í rauninni ekki nógu langt. Ég held að það sé líka tímabært að Alþingi Íslendinga komi á legg ákveðinni sjónvarpsgerð með fréttapistlum með viðræðum þingmanna allra flokka þar sem tryggt væri að menn kæmust að alveg eins og þeir komast að í ræðustóli á hv. Alþingi og fjölluðu um nánast öll mál sem kæmu upp á Alþingi. Hvort sem það eru 10 mál á dag eða 15 mál mundu slíkir fréttapistlar eða samtalsþættir, hvort sem það er kallað í stíl Kastljóss, Silfurs Egils eða Íslands í dag, skila út í þjóðfélagið miklu eðlilegri kynningu á störfum frá Alþingi en gerist í dag.

Þetta þarf ekki að vera mjög flókið mál. Það þarf auðvitað ritstjórn yfir slíkum þætti, hvort sem það væru tveir eða þrír menn, sem ættu að sjá um útsendingar, sem stæðu til að mynda klukkutíma í senn tvisvar til þrisvar á dag eftir atvikum. Með því móti værum við að ríma við nútímamöguleika og auka hlutdeild Alþingis, auka hlutdeild þingmanna á Alþingi í kynningu gagnvart þjóðinni allri beint og milliliðalaust. Útvarpstillagan er því hálfa leið að mínu mati en það hlýtur að koma að því fyrr en seinna að þessi leið verði valin því að auðvitað getur hv. Alþingi ekki setið undir því til lengdar að láta misvitra túlkunarmenn velja og hafna því sem kjörnir þingmenn þjóðarinnar eru að fjalla um á hv. Alþingi og vilja koma inn í umræðu, vilja koma til áhrifa, vilja koma til framkvæmda og gera það í nafni og umboði kjósenda.

Með þessu móti yrði Ísland fyrsta landið í heiminum sem mundi setja upp slíka þætti frá löggjafarsamkundunni og það fer ekkert illa á því. Ísland er hvort eð er með elsta þing í heimi, tilbúið að ríða á vaðið og brjóta nýjar leiðir og vera alltaf með opinn huga til þess. Það munar auðvitað miklu hvort mál geta gengið þannig beint fram eða eins og tíðkast hjá mörgum fjölmiðlum á Íslandi hvað varðar málflutning á Alþingi: Alþingismaður nefnir þrjú atriði í ræðu sinni sem grundvallaratriði. Fjölmiðlamaðurinn tekur eitt atriði, hringir í næsta mann og segir: Hann sagði þetta eða hún sagði þetta. Viðmælandinn svarar: Nú, þetta, já. Hann svarar því með þremur atriðum. Fjölmiðlamaðurinn heldur áfram næsta dag og velur eitt atriðið af því sem viðmælandinn svaraði síðast þegar rætt var um og sleppir alltaf úr því sem honum sýnist. Þetta er gangur málsins í túlkun margra fjölmiðla og hefur verið um árabil. Þetta skekkir ekki bara málflutning og kynningu frá Alþingi, þetta skekkir líka dómgreind og ruglar fólk í ríminu af því að menn fá ekki tækifæri til þess að standa fyrir máli sínu. Til þess á Alþingi Íslendinga að vera að menn standi fyrir máli sínu og komist síðan að niðurstöðu í þinginu sem menn þurfa að geta staðið sáttir um eða ósáttir en alla vega stendur það sem samþykkt er.

Ég held að það væri mjög spennandi að hugsa þessa leið og taka svolítið völdin af sjálfskipuðum pistlahöfundum sem leika sér með fjöreggið á margan hátt í meðferð mála eins og þeim sýnist en ekki á forsendum þeirra sem leggja þau fram og kynna þau á þeim stað þar sem á að vera virðing fyrir málflutningi og metnaður, á Alþingi Íslendinga.