135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

útvarp frá Alþingi.

345. mál
[18:56]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er ekki viss um að ég geti tekið undir óskir hv. þm. Árna Johnsens um eins konar fjölmiðil sem Alþingi reki og reikna ekki með að mikið samkomulag yrði um dagskrárgerð eða fréttaflutning í slíkum fjölmiðli og kannski bara betra að láta fjölmiðlana okkar aðra um þann þátt málsins.

Á hinn bóginn kviknar hjá manni hugsun við þessa ræðu og þennan flutning máls sem ég þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrir, en ég er einn af flutningsmönnum málsins, nefnilega sú að hér fyrr á tímum á upphafsdögum Alþingis má kannski segja að það hafi verið eins konar beinn flutningur frá Alþingi. Fátt var um fjölmiðla, lítið um beinar fréttir, ekkert útvarp og sjónvarp auðvitað til um miðja 19. öld og tímarit voru ekki tíð, útgáfa þeirra dræm og slæleg þannig að Alþingistíðindin, sem prentuð voru eftir hvert þing og dreift um landið, voru í raun og veru þessi beini miðill. Kannski hafa menn á þeim tíma, glöggir bændur og búalið og sjómenn og embættismenn og kaupmenn og tómthúsmenn í kaupstöðum, sem í þetta glugguðu, notið ákveðins beins fréttaflutnings af þinginu betur en þegar fjölmiðlaöldin tók við, sú þegar allir hlutir voru hér túlkaðir, að einhverju leyti með þeim hætti sem hv. þingmaður tiltók. Ég man eftir fréttaflutningnum þegar ég byrjaði að fylgjast með atburðum frá þinginu, ég segi nú ekki í frumbernsku en a.m.k. sem stálpað barn og unglingur. Túlkunin var auðvitað pólitísk og fór fram í hverju blaði fyrir sig þannig að vel var gert við þá sem fylgdu þeim málstað sem blaðið tók undir en ekki við hina.

Hvers vegna er ég að þessu? Vegna þess að við höfum ákveðna tæknilega möguleika á okkar tímum til þess að endurreisa þennan beina fréttaflutning frá þinginu. Hann er auðvitað á netinu og á eftir að eflast þar en hann getur líka eflst með þeirri hugmynd sem færð er fram í þessari tillögu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur o.fl. að það standi hér yfir beint útvarp allan tímann sem menn eru að ræða hlutina í þessum sal og fari ekki eftir því hvort Leiðarljós, íþróttir eða annað dagskrárefni er að hefjast í Ríkisútvarpi allra landsmanna á hverri stundu.