135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

útvarp frá Alþingi.

345. mál
[18:59]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem orðið hefur um þessa tillögu, ég tel hana sýna að tillagan nýtur mikils stuðnings. Veigamikil rök eru fyrir því að það eigi að láta til skarar skríða með þetta. Auðvitað er eðlilegt að kostnaður sé kannaður til hlítar. Það er líka eðlilegt að ætla að hann fari lækkandi eftir því sem tækninni fleygir fram. Við erum hér með gervihnetti sveimandi yfir höfðum okkar og GPS-tækin úti um holt og móa og ég held að tæknin vinni með okkur hvað þetta varðar þannig að þetta fari nú að verða ódýrara eftir því sem tímar líða.

Varðandi hugmyndina frá hv. þm. Árna Johnsen skil ég það alveg að við þingmenn höfum það oft á tilfinningunni að hlutir sem gerast hér inni séu annaðhvort affluttir eða fluttir í svo miklum stikkorðastíl að það skili sér ekki á þann hátt sem við helst kysum yfir til almennings. Ég held nú engu að síður, get tekið undir með hv. þm. Merði Árnasyni hvað það varðar, að það gæti reynst erfitt að koma saman ritstjórn á slíkum fjölmiðli. Það er nú eins og annað hér í þingsölum og samstarf meðal þingmanna að það er skapandi og skemmtilegt og stundum hvín í tálknum og það er bara hluti af starfinu. En þessi tillaga sem slík gerir ráð fyrir því að sem flestir hafi beinan aðgang að þingfundum okkar, að þingfundir séu haldnir í heyranda hljóði eins vítt og breitt og mögulegt er. Ég tel að sem slík sé tillagan þess eðlis að hún ætti að samþykkjast á þessu þingi.

Að svo mæltu legg ég til, hæstv. forseti, að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og síðari umr.