135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:41]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur farið svolítið út og suður. Upphaflega var til hennar stofnað af hálfu hv. þm. Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins. Ég hélt reyndar þegar hv. þingmaður tók til máls að hann væri að gera það í þeim tilgangi að útskýra stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum því talsmaður flokksins við umræður í gær, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, boðaði að mér heyrðist talsvert ólíka stefnu þeirri sem hv. þm. Guðni Ágústsson hefur talað fyrir. Ég hélt því í sakleysi mínu að hv. þm. Guðni Ágústsson ætlaði að nota tækifærið í þinginu til að rétta aðeins kúrsinn af fyrir Framsóknarflokkinn eftir þennan ræðuflutning hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur.

Af því að hér hefur verið drepið á vinnu í sambandi við stjórnarskrána þá er auðvitað ekki rétt sem hefur komið fram að ekkert hafi komið fram af hálfu ríkisstjórnar um hvað yrði gert í stjórnarskrármálum. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að það verði tekið til við þá vinnu aftur á kjörtímabilinu og forsætisráðherra hefur gefið yfirlýsingu í þinginu um það að þegar líður á kjörtímabilið þá geri hann ráð fyrir því að setja á fót vinnu með þeim hætti sem við sáum á síðasta kjörtímabili.

Hér hefur verið vikið að auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Eins og margir hv. þingmenn þekkja áttu sér stað töluverðar umræður um það efni sl. vor. Það vannst ekki tími eða tækifæri til að leiða það mál til lykta á þeim tímapunkti en vandinn í þeirri umræðu var sá að þegar farið var að kafa ofan í málið kom í ljós að þeir sem að því stóðu höfðu mjög mismunandi hugmyndir um hvað fælist í hugtökum á borð við þjóðareign eða sameign þjóðar á auðlindum og við það var ekki unað (Forseti hringir.) heldur má segja að vinnan endaði á þeim tímapunkti að það væri nauðsynlegt að skýra hvað menn ættu við í þeim efnum (Forseti hringir.) áður en lengra væri haldið og það verk bíður okkar.