135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson kvartaði yfir því að umræðan færi út og suður og bætti svo um betur með því að fara sérstaklega að vekja máls á Evrópumálum í þessu samhengi. (Gripið fram í.) Ég get tjáð mig um það í löngu máli og hef gert í þessu ræðupúlti. Mér finnst að sjálfstæðismenn mættu hafa ummæli hæstv. dómsmálaráðherra frá helginni í huga þar sem hann gat þess að Sjálfstæðisflokkurinn mundi brotna í frumeindir sínar ef virkilega yrði tekist á um Evrópumál. (Gripið fram í.) Nei, hann var að tala um sinn eigin flokk, hann var að tala um Sjálfstæðisflokkinn, svo það sé alveg á hreinu en þetta geta menn séð með því að fara inn á vef sjónvarpsins og hlusta aftur á þáttinn Silfur Egils.

Mig langar til að tala um samræðustjórnmálin og um það frumvarp sem nú situr fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins en pukrið er samt ekki betra en svo að það er komið út um allan bæ. Þetta eru vinnubrögð sem eru þinginu mjög til vansa, að stjórnarandstaðan fái ekki eðlilegan aðgang að frumvarpi sem skiptir mjög miklu máli og ef þannig væri að við hefðum allan heimsins tíma til að fjalla um þetta þá væri það kannski allt í lagi en það er bara ekki svo vegna þess að viðskiptalífið er á fleygiferð. Okkur liggur á að taka á þessu máli og fjalla um það og það er ansi hart að samræðustjórnmálin og réttur stjórnarandstöðunnar sé ekki meiri en svo að hún fái engan aðgang að þessu frumvarpi öðruvísi en geta í eyðurnar með því að lesa Morgunblaðið sem virðist eiga fulltrúa á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins einhverra hluta vegna, en ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum í gegnum þessa umræðu. Þarna eru ákveðnir þættir sem skipta mjög miklu máli varðandi framsalsrétt á auðlindunum og þó svo að margt hafi kvisast út um þetta frumvarp þá eru lagatæknileg atriði sem tengjast þessu sem er mjög erfitt að fjalla um eða fá (Forseti hringir.) álit á sem stjórnarandstöðuþingmaður nema hafa frumvarpið sjálft í hendinni. Ég skora því á Sjálfstæðisflokkinn að aflétta leyndinni, (Forseti hringir.) þeir geta haldið áfram að tala um frumvarpið þó svo að við fáum að sjá það.