135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:46]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Í áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna voru íslensku ríkisstjórninni og íslenskum stjórnvöldum gefnir 180 dagar til að koma á mannréttindum, til að lagfæra þá vankanta sem eru á því að mannréttindi séu virt hér.

Nú eru 130 dagar eftir þannig að ekki er vanþörf á því að við ræðum þetta mál. Við, nokkrir þingmenn Frjálslynda flokksins og Vinstri grænna, höfum lagt fram þingsályktunartillögu um að farið verði að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem er jú það sem skiptir öllu máli í þessu sambandi.

Vegna þess að enginn af þingmönnum Framsóknarflokksins er með í þeirri þingsályktunartillögu sem við þingmenn Frjálslynda flokksins og Vinstri grænna höfum flutt í því sambandi þá hlýt ég að spyrja hv. þm. Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins: Hver er afstaða Framsóknarflokksins í málinu? Með hvaða hætti á að taka á áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna? Á að fara að því áliti? Á að koma hér á mannréttindum eða ekki? Það er grundvallarspurning.

Miðað við hvernig þingmenn Samfylkingarinnar töluðu hér um daginn mun myndast meiri hluti á Alþingi fyrir því að koma á mannréttindum í þessu efni ef Framsóknarflokkurinn breytir um stefnu og tekur upp jákvæða mannréttindastefnu ásamt okkur frjálslyndum, vinstri grænum og vonandi Samfylkingunni.

Ég segi svo við hv. formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, kvenskörunginn Arnbjörgu Sveinsdóttur: Ef það er ekki skýrt hvað mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna ætlast til, eins og hv. þingmaður heldur fram, þá ætla ég að benda henni á hvað hún er að segja: Íslenska ríkisstjórnin á að virða mannréttindi og það er forsendan. (Forseti hringir.)