135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[14:03]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða fór dálítið út um víðan völl. Hún byrjaði í orkumálum og sjávarútvegsmálum og um tíma var forsetinn kominn til sögunnar. Það má kannski segja að hún hafi ekki einangrað sig við afmarkað mál sem ég held að sé ágætt í þessari umræðu. Mér hefði hins vegar þótt mikilvægt að Framsóknarflokkurinn gerði einnig grein fyrir sjónarmiðum sínum, til að mynda í orkumálum. (Gripið fram í.) Það skiptir máli varðandi eignarhald á auðlindum, það skiptir miklu máli að Framsóknarflokkurinn geri grein fyrir sjónarmiðum sínum og eins varðandi sjávarútveginn, hvort hann sé fallinn frá fyrri sjónarmiðum sínum um kvótakerfi eða hvaða hugmyndir menn hafa til að taka á því áliti sem nú liggur fyrir. Að sjálfsögðu er það hlutverk stjórnarflokkanna að taka á þessu áliti og að sjálfsögðu vil ég segja það við hv. þm. Jón Magnússon að ég þori að fullyrða, án þess að hafa gert á því mikla skoðanakönnun, að það er mikill meiri hluti fyrir mannréttindum á hinu háa Alþingi. Ég held að það sé alveg klárt og ég held að hægt sé að fullyrða að hver einasti hv. þingmaður sem hér situr vilji vinna mannréttindum framgang á hvern þann hátt sem hann telur mögulegt. Ég held að ekki sé hægt að leggja þetta mál upp á þennan hátt.

Ég vil líka segja um þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á Sjálfstæðisflokkinn um að hann hafi eytt talsverðum tíma í orkumálið að ég held að það sé að mörgu leyti eðlilegt því að hér er um stórmál að ræða. (Gripið fram í.) Hér er verið að fjalla um eignarhald á auðlindum og eðlilega vilja menn fara mjög vandlega yfir það. Það er verið að taka á málum sem hafa legið í láginni mjög lengi og það er eðlilegt að menn gefi sér tíma til þess. Það er einnig vert að nefna það í þessu samhengi að mál er ekki orðið að þingmáli fyrr en það hefur verið lagt fram hér og vitaskuld eiga þingmenn ekki skýlausan rétt á málum frá ráðherrum (Gripið fram í.) áður en þau koma hér fram.

Ég veit ekki til þess að nokkur sé að fjalla um þetta frumvarp. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Hins vegar hefur verið fjallað um efnisatriði þessa máls úti í bæ og hvort menn eru að fjalla þar um frumvarpið, (Forseti hringir.) veit ég ekkert um en málið er ekki orðið að þingmáli. Það er lykilatriði.