135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

geislavarnir.

353. mál
[14:46]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar lög um geislavarnir, nr. 44/2002, tóku gildi var sett ákvæði í þau sem segir að lögin skyldu endurskoðuð innan fimm ára frá gildistöku þeirra og nú er komið að því. Við breytingarnar á lögunum árið 2002 voru gerðar þó nokkrar breytingar sem þótti eðlilegt að láta reyna á og sjá hvernig reyndust og setja þar af leiðandi ákvæði um endurskoðun.

Nú hefur það verið gert og frumvarpið er samið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í nánu samstarfi við Geislavarnir ríkisins sem hafa unnið eftir lögunum frá 2002 og hafa komið nokkrir ágallar í ljós sem verið er að lagfæra með þessu frumvarpi og er það gott.

Hvað varðar megináherslurnar er verið að falla frá hinu reglubundna eftirliti sem Geislavarnir ríkisins höfðu með jónandi tækjum og áherslan er færð yfir á gæðakerfi og innra eftirlit hjá viðkomandi stofnunum sem nota jónandi tæki. Ábyrgðinni er þar af leiðandi velt yfir á notendur, það er sannarlega verið að einfalda ferlana hvað varðar innflutning, leyfi og eftirlit með jónandi tækjum en það á jafnframt að tryggja að öryggi í notkun þessara tækja fyrir almenning, fyrir þá sem nota tækin og fyrir sjúklinga sé tryggt og sé betra en hefur verið.

Allt er þetta af hinu góða nema ég vil í þessu sambandi nefna að þetta átti einnig við um Rafmagnseftirlit ríkisins, sem var lagt niður og sett yfir í einkarekstur þar sem ábyrgðinni á innflutningi og notkun rafmagnstækja var komið yfir á söluaðila og notendur og síðan gerir fyrirtækið sem hefur eftirlitið ákveðnar stikkprufur, gerir úttekt á rafmagnsöryggi. Út frá því hvernig stikkprufurnar koma út verða málin skoðuð nánar hvort heldur það eru fjós, ákveðin rafmagnstæki eða annað. Það er ekki eins og áður var, farið í eftirlit í öllum hesthúsum, í öllum fjósum, með öllum raftækjum sem flutt voru inn heldur er áherslan á gæðakerfi og innra eftirlitið.

Nú er vissulega, hæstv. forseti, ekki hægt að líkja þessu saman því það er ekki verið að leggja niður Geislavarnir ríkisins en það er sama hugmyndafræði á bak við innra eftirlit og ábyrgð viðkomandi stofnunar. Ég tel því að nú sé áhugavert að reyna að leggja mat á það hvernig rafmagnseftirlitið hefur þróast á þeim árum sem ábyrgðinni var velt yfir á notendur, innflytjendur og þar sem gæðakerfin áttu að taka við og innra eftirlitið. Sannast sagna tel ég að það sé eftirlit sem við þyrftum að fara í gegnum og skoða hvort sé nógu tryggt eins og það er í dag því að það er ekki einleikið hvað brunar hafa verið algengir. Það er hægt að benda á það hlutverk sem Rafmagnseftirlitið hafði á sínum tíma, hvað það skilaði góðum árangri og miklum vörnum og leiðbeiningum til þeirra sem voru að flytja inn og tryggði ákveðið öryggi á gæðum tækjanna. Sama gilti um notendur, leiðbeinendur, ég nefni t.d. sérstaklega bændur, leiðbeiningar til bænda um hvernig átti að ganga frá rafmagninu. Þó að þetta sé vissulega ekki sama kerfið vil ég beina því til hv. heilbrigðisnefndar þegar farið verður yfir þetta frumvarp í nefndinni að líta til þessa hvort oftrú á slíku innra kerfi geti ekki líka leitt okkur af leið og hvort það sé nægilegt að trúa á hugmyndafræðina ef reynslan segir annað.

Ég hnýt líka um það hérna þegar verið er að tala um „ábyrgð notanda“ þar sem áherslan er á ábyrgð notanda og í mörgum tilfellum eru þetta heilbrigðisstofnanir sem eru þá að nota jónandi tæki eins og röntgentæki. Geta heilbrigðisstarfsmenn, þ.e. læknar, röntgentæknar og röntgenlæknar ábyrgst það að viðkomandi sjúklingur fái ekki of mikla geislun nema að þeir hafi í höndunum fullnægjandi upplýsingar um hvað tiltekinn sjúklingur eða einstaklingur er búinn að fara í margar röntgenmyndir og á hve stuttum tíma? Er þetta ekki hluti af því að geta leitað í rafrænar upplýsingar og skoðað hversu mikla geislun viðkomandi einstaklingur eða sjúklingur hefur fengið og á hvað löngum tíma, fengið upplýsingar úr rafrænni sjúkraskrá? Eins og kerfið er í dag þá eru ekki tengingar á milli allra heilbrigðisstofnana og rafrænar tölvumyndir, sem sumir kalla röntgenmyndir, fara ekki á milli staða, sömu sjúklingarnir eru myndaðir vegna ákveðinna einkenna á nokkrum stöðum því það er einfaldara en að senda myndir á milli. Geta læknar í raun borið slíka ábyrgð nema það felist í kerfinu að allar heilbrigðisstofnanir séu tengdar þessu rafræna kerfi og sendi röntgenmyndir á milli svo að ekki sé verið að geisla of mikið?

Eins hnýt ég um þá upphæð sem á að fara í rekstrarkostnað Geislavarna. Ef hæstv. ráðherra kemur hér upp aftur og fer yfir athugasemdirnar sem komið hafa fram vil ég óska eftir því að hann geri grein fyrir því hvers vegna rekstrarkostnaður Geislavarna ríkisins hefur aukist um rúmar 6 millj. kr. á ári og stofnkostnaður verði 8 millj. kr., ef þetta er til þess að einfalda ferlið og einfalda eftirlitið.

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé mikilvægt að fara vel yfir þessar breytingar og þá með fulltrúum frá Geislavörnum ríkisins sem þekkja þetta mál hvað best. Þetta eru það sérhæfð mál og á hendi einnar stofnunar að sjá bæði um innflutning og sem betur fer núna að fá upplýsingar um útflutning á geislandi efnum og ég álít að það sé rétt að fá góða yfirferð yfir málið.