135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

almannatryggingar.

60. mál
[16:42]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem felur í sér að auka greiðslur ríkisins til barna og ungmenna sem og elli- og örorkulífeyrisþega vegna tannlækninga.

Af einhverjum ástæðum hafa tannlækningar ætíð verið meira og minna utan heilbrigðiskerfisins. Það á sennilega rætur til þess að rekja að fólk hefur ákveðin áhrif á kostnaðinn með því að sinna tannhirðu. Þeir sem eru duglegir í tannhirðunni verða fyrir minni kostnaði að jafnaði. Auðvitað eru til meðfæddir gallar sem valda því að fólk þarf tannlækni en almennt er tannheilsan á manns eigin ábyrgð. Ég held að það sé ástæðan fyrir því að tannlækningar heyra ekki undir heilbrigðiskerfið. En þar er löggjafinn ekki sjálfum sér samkvæmur vegna þess að það er ýmislegt fleira sem fólk getur haft áhrif á og nefni ég þar t.d. offitu eða reykingar sem auka hættu á krabbameini. Ekki hefur komið til tals að refsa mönnum fyrir þá hegðun með því að ríkið taki ekki þátt í kostnaðinum. Ég tel eðlilegt að það verði skoðað að heilbrigðiskerfið taki meiri þátt í tannlækningakostnaði.

Frumvarpið sem við ræðum, frú forseti, fjallar um tannlækningar barna og ungmenna sem og elli- og örorkulífeyrisþega. Nú er stór hluti þjóðarinnar ekki í þessum hópum og þarf ekki síður á tannlækningum að halda. Mér finnst það dálítið þröng sýn, að horfa eingöngu til þessara hópa. Auðvitað má segja að með því að huga að tannheilsu barna og unglinga sé lagður grundvöllur að tannheilsu fullorðinsáranna og þar af leiðandi væri eðlilegt að þau féllu undir þennan lið. Varðandi elli- og örorkulífeyrisþega er bent á slæma stöðu þeirra sem er stundum slæm en stundum ekki. Fjárhagsleg staða þeirra er stundum góð og stundum ekki góð og því er ekki hægt að alhæfa í því efni.

Það er mikilvægt að horfa líka til annarra utan þessara hópa með slæma fjárhagslega stöðu sem þurfa ekki síður á aðstoð að halda, sérstaklega með hliðsjón af því að tannlæknakostnaður getur oft á tíðum hlaupið á mörgum hundruðum þúsunda. Þar geta verið mjög háar upphæðir sem geta farið mjög illa með fólk, jafnvel þá sem eru með þokkalegar tekjur.

Það er ýmislegt skrýtið í þessum málum. Við höfum t.d. bannað auglýsingar í heilbrigðisgeiranum, sem er dálítið merkilegt vegna þess að auglýsingar eru í eðli sínu upplýsingar. Það er eins og það megi ekki upplýsa fólk um heilbrigðismál. Ég held að löggjafarsamkundan ætti að vinda bráðan bug að því að aflétta þessu upplýsingabanni þannig að fólk geti leitað sé upplýsinga um hvar heilbrigðisþjónustu er að hafa og hvað hún kostar, t.d. í tannlækningum. Ég held að Tryggingastofnun eða hæstv. ráðherra ætti að vinna að því að upplýsa fólk á heimasíðu ráðuneytisins um tannlækningakostnað þannig að sjúklingar geti leitað ódýrari leiða ef þeir kæra sig um. Það stuðlar líka að samkeppni því að auglýsingaleynd eða auglýsingabann kemur í veg fyrir samkeppni. Það liggur í hlutarins eðli.

Eins og komið hefur fram í umræðunni er ég formaður nefndar heilbrigðisráðherra sem á að fjalla um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu. Þar vinna menn að því að skoða fyrsta þrep, sem væru lyfin. Annað þrepið yrði væntanlega allt heilbrigðiskerfið. Þar komum við að ýmsum vandamálum varðandi afmörkun. Hvaða lyf eiga að falla inn í kerfið og hvaða lyf ekki? Eins er með afmörkunina í heilbrigðiskerfinu öllu. Hvaða þjónusta á að vera inni kerfinu og hvað þjónusta utan þess? Eiga fegrunaraðgerðir að vera innan kerfisins eða ekki? Þar koma t.d. inn í tannréttingar sem stundum eru fegrunaraðgerðir og stundum ekki. Reyndar segja tannlæknar mér að ekki sé mjög erfitt að greina þar á milli þótt örugglega sé eitthvað um vafamál.

Ég tel að nefndin sem ég stýri eigi að skoða allt heilbrigðiskerfið og þar með hvort tannlækningar eigi að heyra undir kerfið eða ekki. Ég er persónulega á því að það sé ekkert sérstakt við tannholið eða munnholið sem greini það frá öðrum pörtum líkamans þannig að það skuli ekki falla undir heilbrigðiskerfið. Ég tel að það ætti ekki síður að falla undir heilbrigðiskerfið en margt annað. Að sjálfsögðu mun það auka kostnað í kerfinu töluvert og þá hugsanlega greiðsluþátttöku almennings. En ég hugsa að fólk væri almennt sáttara við að borga eilítið meira í stað þess að lenda í þeim áföllum sem sumir hafa lent í með mjög miklum kostnaði í tannlækningum.

Ég nota þetta mál, sem fjallar eiginlega á mjög takmarkaðan og afmarkaðan hátt, þ.e. bara tannlækningar barna og ungmenna og elli- og örorkulífeyrisþega, til að fjalla um heilbrigðiskerfið í heild sinni. Ég get ekki fallist á frumvarpið í sjálfu sér vegna þess að mér finnst það of afmarkandi. Það tekur eingöngu til afmarkaðs hóps og leysir í rauninni ekki vanda lágtekjufólks sem þarf að borga mjög mikið í tannlækningakostnað.