135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

almannatryggingar.

60. mál
[16:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi síðasta athugasemd er náttúrlega algjörlega út í hött, að tala um að þetta nái til afmarkaðs hóps. Við erum að tala um börn og unglinga almennt í landinu og elli- og örorkulífeyrisþega almennt. Spurningin er þá hvort hv. þingmaður vill hafa þetta afmarkaðra.

Það sem ég kom hins vegar upp til að spyrja hv. þingmann um varðar hugrenningar hans um auglýsingar. Er það svo að skilja að í stað þess að tannlækningar fari inn í hið hefðbundna form almannatrygginga, þar sem sérfræðingar fá greitt samkvæmt töxtum sem almannatryggingar semja um við viðkomandi sérfræðinga, þá verði viðhaldið því kerfi sem er nú við lýði að tannlæknar séu sjálfráðir um gjaldskrána? Verður þá ekki erfitt að framkvæma þær hugmyndir sem hv. þingmaður er að velta fyrir sér í þeirri nefnd sem hann veitir forstöðu og hér hefur verið vísað til?

Varðandi auglýsingar þá finnst mér málflutningur hv. þingmanns einkennast fremur af óskhyggju en raunsæi þegar hann segir að eðli auglýsinga sé að upplýsa fólk. Þannig vildum við jú hafa það. Auglýsingar eru hvorki góðar né slæmar í sjálfu sér, það eru hins vegar til góðar og slæmar auglýsingar, misupplýsandi. Hefur hv. þingmaður kynnt sér auglýsingar heilbrigðisþjónustunnar í Bandaríkjunum þegar hún er að keppast um viðskiptavini eins og það er kallað, um sjúklinga? Ég get fullyrt að þar eru ekki á ferðinni upplýsandi auglýsingar eftir því sem ég hef heyrt.