135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs sökum þess að svo er nú komið að yfirmenn bandarísku leyniþjónustunnar og yfirmaður CIA, Michael Hayden, hefur neyðst til að viðurkenna að leyniþjónustan hafi beitt pyndingum við yfirheyrslur á föngum, svonefndum vatnspyndingum eða „waterboarding“ og þó svo því sé haldið fram að aðeins hafi verið um að ræða fáein afmörkuð tilvik meintra yfirmanna hryðjuverkasamtakanna Al Kaída þá er þetta engu að síður staðfesting á því að þessar pyndingar hafa átt sér stað.

Það er einnig rétt að hafa í huga að sama stofnun, leyniþjónusta Bandaríkjanna CIA er jafnframt ber að því að hafa eytt sönnunargögnum, myndböndum um óhefðbundnar yfirheyrsluaðferðir á föngum eins og þeir kjósa að kalla það í fangelsum bæði í Asíu, Evrópu og í Guantanamo-flóa á Kúbu.

Nú háttar þannig til að í utanríkismálanefnd bíður afgreiðslu tillaga frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að Alþingi fordæmi mannréttindabrotin og hvetji bandarísk yfirvöld til að loka fangabúðunum í Guantanamo. Ég hyggst því beina máli mínu til bæði formanns og varaformanns utanríkismálanefndar sem að minnsta kosti er í salnum sem og hefði verið áhugavert að heyra hvort hæstv. utanríkisráðherra hyggist aðhafast af þessu tilefni þar sem bandarísk stjórnvöld hafa núna viðurkennt á sig mannréttindabrot. Má ég þá minna á að pyndingarnar sem þarna er staðfest að hafi farið fram eru ekki einu mannréttindabrotin sem fólgin eru í geymslu fanga til dæmis í fangabúðunum í Guantanamo. Þar er um ómannúðlega meðferð að ræða á allan hátt og allar grundvallarreglur réttarríkisins og réttlátrar málsmeðferðar eru brotnar þar sem mönnum er haldið föngnum án ákæru og án lögfræðiaðstoðar árum saman.

Það væri myndarbragur á því, virðulegur forseti, að Alþingi ræki nú af sér slyðruorðið og afgreiddi með hraði (Forseti hringir.) ályktun þar sem þessu framferði er mótmælt, það fordæmt og bandarísk stjórnvöld hvött til að bæta ráð sitt og loka fangabúðunum í Guantanamo.