135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:33]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Samstarf og samvinna Íslands og Bandaríkjanna um áratuga skeið hefur byggst á þeirri forsendu að Bandaríkin hafa rækt hlutverk sitt að vera í fararbroddi lýðræðisþjóða í Vesturheimi. Það er sorglegt og alvarlegt að þau hafi með framgöngu sinni varðandi rekstur búðanna í Guantanamo skorist úr leik í því efni og kosið að haga meðferð sinni á föngum þar með þeim hætti að ekki samrýmist alþjóðasáttmálum eða grundvallarreglum um mannréttindi.

Ég er sammála hv. þingmanni um að mikilvægt sé að Alþingi Íslendinga álykti um stöðu mála í Guantanamo. Ég vek athygli á því að þegar sú tillaga sem hann gerði að umtalsefni var til 1. umr. í þinginu var um hana mikil samstaða. Ég fyrir mitt leyti tel fulla ástæðu til þess að hraða vinnu við hana í utanríkismálanefnd og leita víðtækrar samstöðu. Ég held að það skipti miklu máli að héðan frá Alþingi komi skýr skilaboð um að okkur hugnist ekki þær aðferðir sem hafðar hafa verið uppi við meðferð fanga, ósakaðra manna í Guantanamo og að mönnum skuli þar haldið án þess að þeir séu ákærðir eða leiddir fyrir dómara. Slíkt brýtur gegn grundvallarmannréttindum og það er einfaldlega ekki boðlegt að beita hvaða meðulum sem er í baráttu af því tagi sem Bandaríkjamenn telja sig þurfa að heyja nú.