135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:35]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Íslendingar setja mannréttindi í öndvegi sinnar utanríkisstefnu nú sem endranær og hvetja til þess að þau séu virt hvar og hvenær sem er. Þess vegna fordæmum við allar pyndingar, að sjálfsögðu, hafi þær átt sér stað. Ég ætla ekki að mæla þessum brotum sem framsögumaður fjallaði um bót en þó þykir mér skárra í þessu efni að það komi líka fram að þetta hafi ekki gerst á síðastliðnum fimm árum, en ítreka það að ég er ekki að mæla þeim neina bót hér.

Baráttan gegn alþjóðlegum hryðjuverkum verður að sjálfsögðu að fara eftir alþjóðlegum reglum hvað varðar mannréttindi og er rekstur Guantanamo-búðanna engin undantekning þar á og þetta held ég að hafi ítrekað komið fram í samtölum íslenskra stjórnvalda við Bandaríkjamenn.

Ég tel í sjálfu sér ekki tilefni til sérstakra aðgerða í kjölfar þessara upplýsinga en ítreka það bara að íslensk stjórnvöld setja mannréttindi í öndvegi í sinni utanríkisstefnu og hvetja alla til að fara eftir þeim leikreglum sem alþjóðasamfélagið hefur sett í þeim efnum.

Hvað varðar afgreiðslu þingsályktunartillögunnar sem bíður í utanríkismálanefnd þá geri ég ráð fyrir að hún fari sína eðlilegu leið í gegnum þingið og við nefndarmenn í utanríkismálanefnd tökum til við að afgreiða hana þegar tækifæri gefst til.