135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:37]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég var mjög ánægður þegar þingmenn Vinstri grænna fluttu þingsályktunartillögu um fordæmingu á Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu með að talsmenn allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi sem tjáðu sig í málinu skyldu lýsa yfir óánægju og fordæmingu á þeim mannréttindabrotum sem Bandaríkjamenn stæðu fyrir með því að viðhalda og hafa þær fangabúðir sem þar er um að ræða.

Með því að Alþingi Íslendinga lýsir yfir fordæmingu á þessum fangabúðum þá erum við í raun að taka undir með alþjóðasamtökum lögmanna og flestra annarra sem hafa tjáð sig um löggjafarmálefni, um fordæmingu á því að alþjóðasamningar séu brotnir með þeim hætti sem Bandaríkjamenn eru að gera með því að hafa um árabil rekið fangabúðir án dóms og laga.

Hvað er um að ræða? Það var greint frá því í fréttum núna að það er verið að rétta yfir einum sem hefur verið fanginn í Guantanamo-búðunum um árabil. Hvað var hann gamall þegar hann var handtekinn? Hann var 15 ára. Hann er búinn að sitja í fangabúðum frá því að Bandaríkjamenn hófu herhlaup sitt inn í Afganistan án dóms og laga. Þetta er brot á öllum reglum um mannréttindi, um réttindi stríðsfanga og það er mjög miður fyrir okkur sem höfum litið á Bandaríkin sem forusturíki í mannréttindum og baráttu hins frjálsa heims að horfa upp á það að þessi þjóð skuli brjóta þessa hluti sem við viljum og eigum að berjast fyrir, að mannréttindi líka þeirra og sérstaklega þeirra sem þurfa á að halda, eru stríðsfangar, séu virt. Þess vegna hvet ég til að Alþingi afgreiði sem allra fyrst þá ályktunartillögu sem hér liggur fyrir um þetta atriði.