135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:39]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að vekja athygli á þessu máli á Alþingi. Ég fagna því einnig að fjölmargir þingmenn hafa skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að búðunum skuli lokað hið snarasta.

Þau mannréttindabrot sem framin hafa verið í Guantanamo eru með öllu ólíðandi. Ekkert réttlætir að mönnum sé haldið þar án dóms og laga svo mánuðum skiptir. Dæmi eru um að menn hafi verið þar í fimm ár án ákæru og allt niður í 13 ára gamla. Þetta er skýlaust brot á Genfarsáttmálanum og öðrum mannúðar- og mannréttindaákvæðum sem við Íslendingar höfum samþykkt. Við Íslendingar erum ekki fjölmenn þjóð en rödd okkar er sterk og við eigum að standa framarlega í flokki á heimsvísu hvað mannréttindaumræðu varðar og það má hvergi hopa í þeirri umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum alltaf að taka alvarlega skilaboð frá mannréttindasamtökum, álitum frá mannréttindanefndum og dómum mannréttindadómstóla. Ég hvet ríkisstjórnina til að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að búðunum verði lokað og fordæma um leið þau mannréttindabrot sem þar hafa verið framin.