135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:46]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, 5. þm. Norðausturkjördæmis, sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og jafnframt formaður þingflokks sjálfstæðismanna, vegna hugmyndar sem kom upp í vikunni hjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins þess efnis að það gæti komið til greina að hans mati að ríkið keypti greiðslumark í mjólk, keypti það gjörsamlega af bændum.

Látum vera þótt þessi sjónarmið komi fram úti í bæ, þótt vissulega sé um mikilvægan einstakling að ræða sem þekkir vel til í þessum geira. Það sem veldur mér áhyggjum er að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur tekið undir að nokkru leyti með Vilhjálmi Egilssyni og telur að þá hugmynd megi skoða. Hann vill velta þessu fyrir sér í samhengi við ýmislegt á alþjóðlegum markaði o.s.frv.

Ég tel að þarna sé um hugmynd að ræða sem þurfi í raun ekki að hafa mörg orð um en hún gengi í raun út á að Ísland yrði fyrsta landið í hinum vestræna heimi til að hætta stuðningi við landbúnað og mjólkurframleiðslu í landinu. Þetta kemur fram á þeim tíma er þjóðir heims fjalla um fæðuöryggi og það að framleiða nægan mat sem allra mest af þeim mat sem þjóðin neytir í eigin landi. Mér finnst ástæða til að heyra álit formanns nefndarinnar á þessu máli. Að mínu mati er þetta nokkuð sem kemur ekki til greina.