135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

skimun fyrir krabbameini.

330. mál
[14:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin þó að þau valdi mér vissum vonbrigðum og nokkrum áhyggjum. Þetta er ansi takmarkaður hópur, 60–69 ára að aldri, sem þarna á að byrja með og er ekki í samræmi við þá tillögu sem nefnd landlæknis gerði á sínum tíma. En mjór er mikils vísir og við skulum vona að þetta muni takast vel.

Ég vil leggja áherslu á það að árangur hópleitar er gríðarlega mikill og við þekkjum hann til að mynda hjá Krabbameinsfélaginu, leitina að brjóstakrabbameini sem félagið hefur annast og skipulagt allt frá árinu 1971 og með röntgenmyndatökum frá 1988. Ég get ekki stillt mig um að nefna hér niðurstöðu nýrrar rannsóknar sem er kynnt í nýjasta hefti Læknablaðsins þar sem sýnt er fram á að dánartíðni kvenna sem mæta í brjóstaskoðun hjá Krabbameinsfélagi Íslands er 30–40% lægri en hinna sem ekki mæta. Þetta er sannarlega árangur sem ber að fagna og á að hvetja allar konur til að panta sér tíma eigi síðar en nú þegar á Leitarstöðinni.

Þessi árangur vekur okkur bjartsýni um að það sé hægt að ná miklum árangri í skimun fyrir öðrum krabbameinum. Ég legg á það áherslu að samvinna verði höfð við Krabbameinsfélagið við undirbúning þessa máls og að félaginu verði falið að sjá um boðun og mögulega einnig skimunina þar sem því verður við komið til þess að nýta þekkingu og reynslu Leitarstöðvarinnar og krabbameinsskrárinnar í þessum efnum, því að þar er þekking og reynsla sem á að nýta að mínu viti. Það mun auðvelda allar aðgerðir og með slíkt veganesti getum við orðið öðrum þjóðum góð fyrirmynd.