135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

krabbamein í blöðruhálskirtli.

334. mál
[14:16]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina en hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur beint til mín spurningum um tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli hérlendis og um hugsanleg áform um að hefja skipulagða leit að því krabbameini.

Eins og kunnugt er er krabbameinsskrá á Íslandi með þeim virtustu sem haldnar eru í heiminum og teljast upplýsingar úr henni mjög áreiðanlegar. Samkvæmt krabbameinsskránni greinast um 190 karlar árlega miðað við meðaltalsskýrslu fimm ára. Dánartíðnin er um það bil 50 karlar á ári. Þetta merkir að árlegt aldursstaðlað nýgengi krabbameins í blöðruhálskirtli hefur verið 91,4 af 100 þúsund og árleg aldursstöðluð dánartíðni er 19,3 af 100 þúsund. Skipuleg leit hjá einkennalausum körlum tíðkast ekki meðal nágrannaþjóða okkar og stafar það af því að engar góðar viðurkenndar skimunaraðferðir eru til sem nota má við leit í einkennislausum hópi karla. Verulegar kröfur eru gerðar til slíkra aðferða ekki hvað síst að því er varðar næmni greininga og nákvæmni. Þetta er hins vegar mál eins og mörg önnur á sviði læknisfræðinnar sem er í örri þróun og það er full ástæða til að vera vel vakandi varðandi nýjustu upplýsingar hvað þetta varðar. Við viljum trúa því að við séum það og það er svo sem ekkert leyndarmál að um leið og við skoðum þetta varðandi ristilkrabbameinið þá erum við að skoða ýmsa aðra þætti, bæði krabbamein og ýmislegt annað sem hugsanlega mætti nota og hugsanlega samnýta þegar menn eru að skoða hluti eins og boðun og annað slíkt, við leyfum okkur því eðli málsins samkvæmt að skoða þetta mál í stærra samhengi. Allar ábendingar þar um, eins og komu frá hv. þingmanni, eru að sjálfsögðu mjög vel þegnar.

Það er ekki einungis markmið okkar að vera hér með heilbrigðisþjónustu eins og hún gerist best í heiminum þegar kemur að því að taka á hlutum þegar vandamál koma upp, heldur er auðvitað markmið okkar að hér verði sem heilbrigðust þjóð um alla framtíð. Það er stóra markmiðið. Það væri auðvitað draumsýn að við þyrftum ekkert á þessari góðu heilbrigðisþjónustu að halda. Einn liður í því er það sem við köllum forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir eins og t.d. skimun. Þetta er sem betur fer í örri þróun og við höfum einsett okkur að vera mjög vakandi hvað þá þætti varðar og höfum verið að skoða þessi mál eins og ég nefndi í stærra samhengi og þá sérstaklega varðandi skimun sem hér hefur verið rætt um og vísað var í í fyrri fyrirspurn hv. þingmanns.

Svona er staðan í þessu máli núna og ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns.