135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

krabbamein í blöðruhálskirtli.

334. mál
[14:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða DNA-kortlagningu, DNA-próf á þeim fimm genum sem sýnt hefur verið fram á að komi við sögu við myndun og þróun blöðruhálskrabbameins er allt önnur Ella. Ég vil vekja athygli á því að þetta er rannsókn sem Karolinska stofnunin í Stokkhólmi framkvæmdi, víðtæk rannsókn og segir frá á þeirri heimasíðu sem ég nefndi áðan, hjá Cancerfonden í Svíþjóð.

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin. Það er dauðans alvara, eins og hv. þm. Þuríður Backman benti á áðan, að 50 karlar skuli þurfa að látast úr blöðruhálskirtilskrabbameini á ári og að 190 greinist á hverju ári. Þetta eru allt of háar tölur og þær tölur sem ég nefndi og voru 5–6 árum eldri, voru 164 á ári. Menn geta séð hver aukningin á nýgengi þessa sjúkdóms er.

Ég fagna því að ráðherra er tilbúinn til að líta á skimun fyrir ristilkrabbameini sem við ræddum áðan í víðara samhengi. Það má öllum ljóst vera að það væri mikið fjárhagslegt hagræði að því fyrir heilbrigðiskerfið en ekki síður fyrir einstaklingana ef skimað væri fyrir blöðruhálskirtilskrabba hjá körlum um leið og þeir mæta í skimun fyrir krabbameini í ristli eins og nú er fyrirhugað að hefja í ársbyrjun 2009.

Einn forvígismanna baráttunnar gegn blöðruhálskirtilskrabbameini sagði reyndar í mín eyru að annað gæti flokkast undir hrein afglöp peningalega og með tilliti til þeirra lífa sem eru í húfi. En ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða í þessum efnum.