135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

krabbamein í blöðruhálskirtli.

334. mál
[14:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og ég bendi á að bæði út af þessari fyrirspurn og þeirri sem var hér á undan að eðli málsins samkvæmt komumst við ekki hjá því að ræða líka um fjárhagslegu hliðina í þessum efnum. Varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir eins og þær sem hér um ræðir erum við að leggja út ákveðna fjármuni núna sem spara okkur þegar til langs tíma er litið. Sparnaðurinn kemur fram á næstu árum og kannski frekar á áratugum. Það minnir okkur á það sem við verðum alltaf að hafa í huga að heilbrigðismál eru alltaf langtímamál. Ég hef sagt að þó að það sé stundum sagt um stjórnmálamenn að þeir hugsi í fjórum árum, að sem heilbrigðisráðherra hef ég a.m.k. ekki efni á því að gera slíkt, ég verð að hugsa þetta til miklu lengri tíma. Það er alger nauðsyn.

Ég fagna því að hv. þm. Þuríður Backman talar um opnari umræðu, bæði varðandi blöðruhálskrabbamein og annað slíkt. Mér þótti líka athyglisvert sem kom fram hjá hv. þm. Ármanni Kr. Ólafssyni þegar hann talaði um DNA-prófin og ég held að við ættum að venja okkur við það að nálgast það með opnum hug þegar koma nýjungar, við getum kallað það tæknibreytingar eða þróun, eins og t.d. hefur komið hér á landi varðandi DNA-próf og fyrsta nálgun okkar ætti að vera þessi: Hvernig getur það nýst okkur til að bjarga lífum og bæta velferð? Í þessu tilfelli virðist vera um það að ræða, eins og kom fram hjá þm. Álfheiði Ingadóttur. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér það mál út í hörgul en við erum með stórkostlega vísindastofnun og fyrirtæki sem eru mjög framarlega á þessu sviði og við eigum auðvitað að skoða hvernig við getum nýtt okkur þetta okkur öllum til heilla.