135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

uppbygging heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

336. mál
[14:35]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Mig rak í rogastans, ég verð að viðurkenna það, þegar ég las það í blöðunum að 30 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu væru án heimilislæknis samkvæmt skilgreiningu læknanna sjálfra, eins og ég skildi þingmann, en í raun séu það 8.500 manns sem vanti heimilislækni og það sé hin opinbera tala. Þá spurði maður sjálfan sig: Hversu mikið vandamál er þetta? Það er eitt að tala um að 8.500 manns séu án heimilislæknis en annað að fólk fái ekki þjónustu.

Ég man eftir því að áður en ég fékk heimilislækni á sínum tíma, sem tók svona smátíma, þá fékk ég samt sem áður alltaf þjónustu (Gripið fram í: Og dýrari.) og í dag þegar mig vantar þjónustu fer ég bara á einhverja heilsugæslustöðina í Kópavogi og fæ alltaf þjónustu. Það er því ekki samasemmerki á milli þess að fá ekki þjónustu og þess að vera ekki með heimilislækni. Svo ég tali nú ekki um hina frábæru þjónustu (Forseti hringir.) hjá Læknavaktinni. En það hefur ekki verið vandamál að fá þjónustu.