135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

uppbygging heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

336. mál
[14:36]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er mikilvægt málefni sem við fjöllum um hér því að ástandið á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar grunnþjónustuna, heilsugæsluþjónustuna hefur verið alvarlegt og hefur setið á hakanum.

Ef við erum að tala um skilvirka heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi, þá verður hún eingöngu tryggð með fullnægjandi grunnþjónustu, þ.e. heilsugæsluþjónustu um allt land. Þjónustan á höfuðborgarsvæðinu hefur setið eftir. Það er staðreynd. Og það er alvarlegt ástand þegar um 30 þúsund manns eru ekki skráðir hjá heimilislækni eða heilsugæslustöð. Þessir einstaklingar verða þá að leita annað, leita til sérfræðinga, leita til slysa- og vaktþjónustu og til vaktþjónustu utan dagvinnutíma. Þetta er dýrari þjónusta og hún er óskilvirkari, þ.e. án samfellu í þjónustu og eftirfylgni.

Annað sem við þurfum að hafa í huga, og er líka mjög alvarlegt ástand, er það að ekki hefur orðið endurnýjun í stétt heimilislækna. (Forseti hringir.) Það er nokkuð sem verður að horfa mjög alvarlegum augum á og ég hvet hæstv. ráðherra að draga það ekki og bíða ekki eftir enn verra ástandi en nú er. Það verður (Forseti hringir.) að vera hægt að manna stöðvarnar eins og þær eru og það verður að vera hægt að byggja þær upp.