135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

uppbygging heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

336. mál
[14:41]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Ellerti B. Schram að við erum alltaf að fjárfesta og verja fjármunum í þennan málaflokk. Ég tek því að sjálfsögðu bara vel. Hins vegar er það ekki rétt að það vanti 500 millj. í rekstur heilsugæslunnar. Öllum sem skoða það mál ætti að verða það ljóst.

Hins vegar er það sjónarmið hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur athyglisvert, að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sé of stór og of miðstýrð. Ég hef heyrt þessi viðhorf víða og þetta er eitt af því sem menn þurfa að skoða.

Svo menn átti sig aðeins á hlutunum þegar verið er að miða við einhverjar tölur, eins og 1.500 manns á hvern lækni, þá segir það ekki allt, 1.500 manns á aldrinum 20–30 ára er ekki það sama og 1.500 manns á milli sjötugs og áttræðs eða sextugs og sjötugs, svo dæmi sé tekið. Ég var að koma frá Stokkhólmi og þar er einn læknir fyrir hverja 1.800 íbúa. Aldurssamsetningin skiptir gríðarlega miklu máli. Og að 8.500 manns hafi ekki skráð sig hjá heimilislækni gæti alveg verið af þeirri einföldu ástæðu að það eru ekki allir sem gera það, sérstaklega yngra fólk sem er ekki komið með fjölskyldu. Ég segi fyrir sjálfan mig að ekki gerði ég það þegar ég var einhleypur, að drífa mig að skrá mig hjá heimilislækni, það var ýmislegt annað sem maður var að gera en það.

Einn þáttur í þessu er líka skráningin, hún mætti vera nákvæmari. Það er t.d. fólk á skrá sem er flutt annað, til útlanda eða út á land og annað slíkt. Þetta eru atriði sem við þurfum að fara yfir og erum búin að vera að skoða og settum þennan hóp í sem mun vinna af krafti við að skoða þessa hluti sem best. Við erum algjörlega sammála um markmiðið, það er bara að finna út leiðir til að taka á móti þeim verkefnum sem fram undan eru sem eru m.a. nýliðunin, við erum að keppa um starfsfólk og við sjáum fram á aukin verkefni út af breyttri aldurssamsetningu.