135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

heimsóknir í fangelsi.

173. mál
[14:46]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Í 33. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, er getið um heimsóknir til fanga. Þar kemur fram að fangi geti fengið heimsóknir í fangelsi eigi sjaldnar en vikulega eftir aðstæðum í fangelsi.

Í greinargerð að frumvarpi er varðar lög um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, kemur fram í athugasemdum við 33. gr. að ekki sé gert ráð fyrir að sett verði hámark á heimsóknir til fanga. Því verði að miða við að fangi geti tekið við heimsóknum í hverjum viðtals- eða heimsóknartíma fangelsis. Hins vegar getur forstöðumaður fangelsis leyft frekari heimsóknir eða sett takmörk á heimsóknir til fanga samkvæmt lagagreinum. Þó verður að hafa í huga að fangi getur neitað að fá heimsóknir, sem einnig er getið um í 33. gr. laganna.

Segja má að fjöldi heimsóknartíma fangelsa haldist nokkuð í hendur við aðstæður til heimsókna í hverju fangelsi fyrir sig. Þá ræður einnig miklu jákvæður stuðningur fjölskyldu við fanga hve oft þeir eru heimsóttir. Það er engum vafa undirorpið að þessar heimsóknir eru afar mikilvægar við betrun og meðferð fanga. Þess vegna fullyrði ég að fangelsisyfirvöld leggi sig fram við að koma því við að fangar geti hitt fjölskyldur sínar eins oft og kostur er, svo fremi sem hegðun fanga og aðrar aðstæður komi ekki í veg fyrir heimsóknir. Til dæmis er reynt að hafa hliðsjón af búsetu fangans og fjölskyldu hans við val á vistunarstað fanga, ef aðstæður leyfa, til að auðvelda heimsóknirnar.

Aðstæður í fangelsunum eru misjafnar og nýlega var tekin í notkun ný aðstaða á Kvíabryggju og þar er heimsóknaraðstaðan bætt til mikilla muna. Einnig er unnið að endurnýjun og viðbótum við fangelsið á Akureyri og vonandi verður unnt að taka þá nýju aðstöðu í notkun nú í næsta mánuði og við það batnar einnig aðstaða til heimsókna verulega. Síðan er stefnt að því að reisa aðkomuhús á Litla-Hrauni þar sem m.a. er gert ráð fyrir nýrri heimsóknaraðstöðu sem mun gjörbylta þessari aðstöðu í því stóra fangelsi. Hún mun einnig koma í veg fyrir að börn þurfi að fara inn í öryggisfangelsið, eins og hv. þingmaður benti á að brýnt sé að gera.

Ég tel því að verið sé að vinna að öllum þessum málum og tek undir með hv. fyrirspyrjanda hve mikilvægt er að unnið sé að þessum málum undir styrkri stjórn. Ég tel að fangelsismálastjórar, núverandi og fyrrverandi, og einnig nýr fangelsisstjóri á Litla-Hrauni, hafi sýnt það í verkum sínum að þeim er annt um þennan þátt í lífi fanga.