135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

heimsóknir í fangelsi.

173. mál
[14:49]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er nú þannig að upp undir 1/4 fanga fær aldrei eina einustu heimsókn en auðvitað er mjög brýnt að bæta heimsóknaraðstöðu þeirra sem fá heimsóknir, sérstaklega með tilliti til barna.

Ég vil vekja athygli á því að við bjóðum föngum upp á að vera tveir í klefa. Það er mjög alvarlegt að mínu mati. Við erum með fangelsið á Skólavörðustíg og fangelsið á Litla-Hrauni þar sem viðgengist hefur nú að hafa tvo saman í klefa. Þetta eru ungir, aktífir strákar sem eru tveir saman í klefa. Þó að þessir ungu strákar hafi brotið af sér er ekki hægt að bjóða þeim upp á svona niðurlægjandi aðstæður, það er ekki hægt.

Við verðum að taka okkur tak í þessum málaflokki og það gengur of hægt. Ég veit að til stendur að bæta aðstöðuna á Litla-Hrauni og jafnframt að byggja nýtt fangelsi, hugsanlega með nýjum höfuðstöðvum lögreglunnar, en þetta verður að ganga miklu hraðar fyrir sig. Það er til skammar að ekki skuli vera búið að loka Skólavörðustígnum fyrir löngu síðan og hvað þá að bjóða nú föngum á Litla-Hrauni upp á að vera tveir saman í herbergi (Forseti hringir.) þó að við séum að bæta fangelsin annars staðar í landinu.