135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

heimsóknir í fangelsi.

173. mál
[14:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir fín svör. Ég tel að hæstv. dómsmálaráðherra hafi sýnt mikinn skilning á málinu og ég fagna því að hann skuli sýna þann skilning í þessum sal. Ég tel að það sé mikið fagnaðarefni að móttökuhús eða aðkomuhús á Litla-Hrauni sé að verða að veruleika en mig langar samt að ganga eftir því hvort nákvæmari tímasetningar liggi fyrir hvað þetta varðar. Húsið mun skipta miklu máli hvað varðar það mál sem við ræðum hér í dag.

Ég fagna líka því sem núverandi dómsmálaráðherra hefur beitt sér fyrir gagnvart Kvíabryggju og Akureyri. Það er alveg ljóst að þau jákvæðu skref hafa verið tekin af mörgum, m.a. af fangelsismálayfirvöldum, ráðherra og ekki síst af föngunum sjálfum. Ekki fyrir löngu skilaði nefnd menntamálaráðherra skýrslu um að auka bæri áherslu á menntun fanga.

Eins og allir vita er þó ýmislegt ógert í fangelsismálum þjóðarinnar og má þar nefna frekari uppbyggingu á fangelsisbyggingum, bætt meðferðarúrræði fyrir fanga, aukna möguleika á menntun og vinnu fyrir fanga, betri kjör fangavarða, bætta heimsóknaraðstöðu, aukinn stuðning eftir að afplánun lýkur og svona mætti lengi telja.

Auðvitað held ég að allir í þessum sal telji að það gangi ekki til lengdar að fangar afpláni dóma margir saman í klefa. Dómar hafa verið að þyngjast undanfarin missiri og það eykur að sjálfsögðu álagið á starfsfólk og kerfið. Sömuleiðis hefur samfélagsþjónusta aukist jafnt og þétt að undanförnu en hlutfall þeirra sem þurfa að sitja inni og eru sekir um alvarlegri glæpi, er hærra en áður. Það eru auðvitað staðreyndir sem við þurfum að taka tillit til og ég er bjartsýnn á að núverandi dómsmálaráðherra geri það. Það hlýtur að vera eitt af meginmarkmiðum með fangelsisvist að einstaklingur komi ekki verri út eftir að afplánun lýkur en hann var þegar hann hóf afplánunina. Það er því hagsmunamál okkar allra að þessi málaflokkur fái þá athygli og fjármagn sem hann þarf og því er uppbygging á sérstöku móttökuhúsi á Litla-Hrauni afar jákvætt skref í þá átt.