135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

málefni fatlaðra.

357. mál
[14:56]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál og mun hér í stuttu máli leitast við að skýra stöðu mála.

Verkefnastjórn um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, sem skipuð er fulltrúum ríkis og sveitarfélaga og starfar undir forustu félags- og tryggingamálaráðuneytisins, hóf störf 24. apríl á sl. ári. Verkefnastjórnin hefur starfað ötullega með ráðgjöfum og m.a. kynnt sér reynslu af flutningi verkefna í Danmörku og Finnlandi. Á vegum verkefnastjórnarinnar hafa starfað tvær nefndir, annars vegar nefnd sem fjallar um yfirfærslu þjónustu við fatlaða og hins vegar nefnd sem fjallar um flutning málefna aldraðra.

Nefndin sem fjallaði um yfirfærslu málefna fatlaðra skilaði í nóvember sl. stöðumatsskýrslu til verkefnastjórnar. Verkefnastjórnin hefur jafnframt skilað mér minnisblaði um stöðu mála og tillögum um næstu skref að því er varðar flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Þær tillögur hafa verið kynntar hlutaðeigandi ráðherrum og kynntar í ríkisstjórn en stefnt er að því að verkefnastjórn skili af sér endanlegum tillögum eigi síðar en í marslok á þessu ári. Gert er ráð fyrir því að endanlegt kostnaðarmat vegna flutnings verkefna liggi fyrir eigi síðar en 1. desember 2008 og að í kjölfarið verði gengið frá formlegu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um verkefnaflutning. Í framhaldi af því verði undirbúnar nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar með það að markmiði að lagafrumvarp verði lagt fyrir Alþingi á haustþingi 2009 og stefnt er að því að yfirfærslan á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga geti átt sér stað eigi síðar en í ársbyrjun 2011.

Verkefnastjórn leggur áherslu á að ítarleg greining þjónustu og kostnaðarmat eru grundvöllur þess að sátt náist um verkefnið og framkvæmd þess. Jafnframt er mikilvægt að kynningar- og samráðsferli við sveitarfélög og hagsmunaaðila verði ítarlegt og eigi sér stað reglulega í öllu innleiðingarferlinu. Verkefnastjórnin leggur ríka áherslu á að við yfirfærsluna verði tryggt að ekki verði röskun á þjónustu og að grundvallarforsendan með breytingunni sé bætt nærþjónusta við þá sem hennar njóta og aðstandenda þeirra.

Unnið er út frá eftirfarandi meginforsendum varðandi flutning verkefna á sviði málefna fatlaðra:

Sértæk þjónusta félagsmálaráðuneytisins við fatlaða verði færð til sveitarfélaga.

Flestir grunnþættir verði fluttir til sveitarfélaga. Helsta undantekningin frá þessu verður Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Þjónustan verði einstaklingsmiðuð og á grundvelli þarfa notenda innan þess ramma sem lög um málefni fatlaðra setja.

Unnið verði að þróun innra eftirlits, gæðastaðla, gæðatrygginga og árangursmælikvarða samhliða yfirfærslunni.

Ákveðið verði að lágmarksstærð þjónustusvæða verði almennt sjö til átta þúsund íbúar.

Þjónustusvæðið mótist með frjálsu samkomulagi sveitarfélaga en félagsmálaráðuneytið geti, ef þörf krefur, stuðlað að samstarfi og úrskurðað um það innan tiltekins tímafrests.

Ljóst er að huga þarf vel að því hvernig sveitarfélögin muni taka við þjónustunni þannig að tryggt sé að ekki verði á henni röskun.

Hv. fyrirspyrjandi spyr einnig hvort ráðherra sé hlynntur því að við undirbúning á tilfærslu málaflokksins verði hugað sérstaklega að fjölbreyttari rekstrarformum á sambýlum og annarri þjónustu við fatlaða en nú er. Varðandi þessa spurningu hv. fyrirspyrjanda er ljóst að í félags- og tryggingamálaráðuneytinu hefur verið unnið mikið verk við stefnumótun og framþróun í þjónustu við fatlaða. Sú vinna verður m.a. grundvölluð við frekari vinnu við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Megináherslan þar er lögð á að mæta mismunandi einstaklingsbundnum þörfum og notendastýrðri þjónustu.

Ég hef einnig talið nauðsynlegt að endurskoða búsetumál fatlaðra og ég hef þegar falið starfshópi að endurskoða reglugerð um búsetu fatlaðra. Ég legg ríka áherslu á að þau nýju viðhorf sem hafa verið að ryðja sér til rúms í búsetumálum fatlaðra endurspeglist í allri stefnumótun og starfsemi málaflokksins. Því er þessi endurskoðun afar mikilvæg. Ég er því hlynnt að við undirbúning á tilfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga verði hugað sérstaklega að fjölbreytni í þjónustu og rekstrarfyrirkomulagi í þjónustu við fólk sem býr við fötlun en allt verður þetta þó að taka mið af því fjármagni sem er til ráðstöfunar hverju sinni.

Ég vona að ég hafi svarað fyrirspurnum hv. fyrirspyrjanda.