135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

málefni fatlaðra.

357. mál
[15:01]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda að taka þetta mál hér upp. Ég átti sjálfur þar til fyrir skömmu sæti í verkefnisstjórninni sem hefur unnið að þessu og er áhugamaður um að málefni fatlaðra færist frá ríki til sveitarfélaga. Ég fagna því að því máli vindur ágætlega fram eins og hæstv. félagsmála- og tryggingaráðherra gerði grein fyrir.

Í síðari hluta fyrirspurnarinnar er, eins og ég skil hana, verið að velta því upp hvort ráðherra sé hlynntur því að fara aðra leið, t.d. einhvers konar einkarekstursleið. Ég vil fyrir mína parta vara við því að menn taki um það einhverjar ákvarðanir á hv. Alþingi. Tilgangur þessa máls er jú að færa forræði verkefnisins frá ríki til sveitarfélaga og þess vegna á að láta sveitarfélögunum það eftir. Setja á ramma um það hvaða þjónustu á að veita en sveitarfélögin eiga að sjálfsögðu að hafa sjálfdæmi um það hvernig þau vilja sinna þessari þjónustu. Löggjafinn á að mínu viti ekki að setja sveitarfélögunum einhverjar (Forseti hringir.) reglur í því efni.