135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

málefni fatlaðra.

357. mál
[15:09]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er óhætt að segja, miðað við þá umræðu sem hér hefur farið fram, að mikil og breið samstaða sé um það hér á þingi að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og þá líka málefni aldraðra geri ég ráð fyrir. Forsendur þess að það takist er að allir leggi sig fram um að láta það ganga í þetta skipti. Við þekkjum það öll að slík tilraun hefur verið gerð áður en hún mistókst af því að ekki náðist sátt um fjármagnið sem flytja átti með málaflokknum yfir til sveitarfélaganna. Það er mjög brýnt að við leggjum okkur öll fram um að svo verði núna.

Við vitum að þau verkefni sem hafa verið flutt yfir til sveitarfélaganna, t.d. grunnskólinn, hafa tekist vel. Þjónustan hefur verið bætt við íbúana með flutningi grunnskólans yfir til sveitarfélaganna. Ég er sannfærð um að það sama gerist þegar málefni fatlaðra og aldraðra flytjast yfir til sveitarfélaganna. Þar eiga þau heima eins og er hjá nágrannaþjóðum okkar. Þar eru slík verkefni á vegum sveitarfélaganna og það er alveg klárt að það þjónar þörfum íbúanna miklu betur. Enn er langt í land að við náum þessum árangri en eins og fram kom í máli mínu hér áðan er góður skriður kominn á málið og mikil samstaða um að nú takist þetta.

Rætt var um fjölbreytni í rekstrarformi. Þegar þessi málefni verða flutt til sveitarfélaganna hljótum við að horfa til sjálfstæðis sveitarfélaga, að þau ákveði sjálf sín rekstrarform. Engu að síður hljótum við að viðurkenna að fjölbreytni í rekstrarformi í velferðarkerfinu er staðreynd og hefur tekist ágætlega til. Við horfum líka til þess að víða er verið að taka upp svokallaða notendaþjónustu við fatlaða, þeir hafa sjálfir meira um það að segja hvernig þjónustu þeir fá og hverjir veita hana. Slík þjónusta hefur verið að ryðja sér til rúms hér og ég býst við að það muni gerast í auknum mæli á næstunni.

Virðulegi forseti. Hér er verið a tala um verulega fjármuni. Nú eru 15 milljarðar í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ef við flytjum málefni fatlaðra og aldraðra yfir til sveitarfélaganna er að minnsta kosti um að ræða tvöföldun á fjármagni (Forseti hringir.) yfir í jöfnunarsjóðinn. Þetta eru því stór og viðamikil verkefni sem sveitarfélögin eiga sannarlega að fá.