135. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2008.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

349. mál
[15:13]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Frumvarpið er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneyti á grundvelli tillagna nefndar sem ég skipaði um mitt ár 2005 til að fara yfir lögin og setja fram tillögur að lagabreytingum þar sem úrbóta væri þörf. Var frumvarpið flutt á 39. kirkjuþingi í október 2006 og þar var ályktað að ráðherra væri veitt samþykki kirkjuþings til að leggja frumvarpið fram á Alþingi.

Þær meginbreytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru eftirfarandi: Lagt er til að heiti laganna verði breytt þannig að bætt verði við heitið orðinu „grafreitur“. Gerð er krafa um að lík skuli flutt í líkhús þegar læknir hefur úrskurðað mann látinn og tilgreindur sá hámarkstími sem líða má frá andláti þar til útför fer fram samanber 1. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til að óheimilt verði að greftra lík eða brenna nema það sé lagt í kistu og hjúpað líkklæðum eða öðrum klæðnaði, samanber 3. gr. frumvarpsins. Lagt er til að bætt verði við lögin sérstökum kafla um flutning kistu eða duftkers milli landshluta eða milli landa samanber 4. gr. frumvarpsins. Þá verður nýjum kirkjugörðum gert skylt að gera ráð fyrir óvígðum reit og sérstökum reitum fyrir önnur trúarbrögð en kristni samanber 5. gr. frumvarpsins, auk þess verði heimilt að hafa sérstakan minningarreit í kirkjugarði eða við kirkju vegna horfinna, látinna eða drukknaðra, er njóta skuli sömu helgi og legstaður samanber 6. gr. frumvarpsins. Sérstakur kafli verður um útför og þá sem koma að útförum og þjónustu við útfarir og aðstandendur hins látna samanber 7. gr. frumvarpsins. Lögð er til skilgreining á hugtakinu útför og kveðið á um eftirlit dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með þjónustu þeirra sem koma að útförum. Lagt er til að heimilt verði að grafa kistu ungbarns í leiði með samþykki rétthafa leiðisins samanber 18. gr. frumvarpsins. Lagt er til að kirkjugarðaráði verði veitt heimild til að gera þjónustusamninga við Kirkjugarðasamband Íslands um að annast ýmiss konar verkefni sem lúta að málefnum kirkjugarða samanber 26. gr. frumvarpsins. Þá verði ráðherra veitt heimild til að setja í reglugerð nánari reglur um stofnun og starfrækslu líkhúss.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.