135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

1. fsp.

[10:35]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Hér er um að ræða mál sem við verðum að taka mjög alvarlega.

Það er vaxandi þáttur í starfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins núna að vekja athygli á stöðu íslenskra fiskstofna og hvernig við erum að bregðast við og hvernig við reynum að stunda okkar veiðar með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Það er ekki gert alls staðar í heiminum eins og við vitum og það er auðvitað mjög mikill ábyrgðarhluti af þekktum samtökum eins og WWF að lýsa því yfir að allur þorskur í heiminum sé í hættu því að það hafa þau verið að gera. Því miður er þetta dæmi frá Svíþjóð ekki hið eina, við munum að í fyrra komu fram upplýsingar af þessu tagi frá sömu samtökum um það menn ættu ekki að neyta þorsks vegna þess að þorskurinn væri í útrýmingarhættu.

Við Íslendingar höfum verið að taka hlutverk okkar sem auðlindanýtingarþjóð afar alvarlega og við höfum reynt að bregðast við þegar upplýsingar hafa borist sem hafa gefið okkur tilefni til að grípa til aðgerða eins og við vitum og við vorum m.a. gera varðandi okkar eigin þorskstofn.

Ég hef átt fjölmarga fundi með markaðsaðilum, bæði Íslendingum sem selja fisk á erlendum mörkuðum og eins hef ég margoft hitt helstu kaupendur okkar t.d. á Evrópumörkuðum og núna fyrir helgina átti ég fund þar sem sátu m.a. fulltrúar sænskra kaupenda og útflytjenda á fiski til Svíþjóðar og þar var mér gerð grein fyrir þessu. Ég er með í undirbúningi núna að skrifa bréf til sænskra yfirvalda til að vekja athygli á þessu máli og bera til baka þennan alvarlega óhróður. Þetta er vaxandi þáttur í því starfi sem við sinnum innan ráðuneytisins. Ég hef setið fjölmarga fundi og er t.d. á leiðinni innan tíðar á stóra ráðstefnu í Þýskalandi þar sem okkur gefst tækifæri til að vekja athygli á málflutningi okkar og stöðu okkar því að þetta er ekki eina dæmið sem við höfum í þessu sambandi. Við þurfum að leggja áherslu á þetta og innan okkar vébanda er unnið mjög vel og kappsamlega að þessum málum.