135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

2. fsp.

[10:42]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Ég held að allt hafi verið satt og rétt sem kom fram í fyrirspurn hans eða aðdraganda hennar. Svar mitt er einfalt, að sjálfsögðu eigum við að standa vörð um meginmarkmið tóbaksvarnalaganna og annað stendur ekki til. Eðli málsins samkvæmt geta menn skoðað útfærslur og annað slíkt en markmiðin eru skýr og við eigum að reyna að ná þeim. Við höfum sem betur fer náð árangri hvað þetta varðar á Íslandi. Við höfum náð árangri við að ná reykingum niður, sérstaklega hjá þeim sem yngstir eru, með skipulegu forvarnastarfi. Ég hef oft lýst því yfir að ég hef áhuga á að nýta þær aðferðir sem við höfum notað þar víðar til að ná árangri á fleiri sviðum. En við höfum náð árangri sem eftir er tekið út um allan heim í forvörnum þegar kemur að vímuefnanotkun, reykingum og áfengisneyslu hjá unglingum á grunnskólaaldri eins og við þekkjum.

Ég held að við þingmenn ættum að byrja heima hjá okkur, það er mín skoðun. Þrátt fyrir að það sé heimilt í lögunum að hafa sérstakt herbergi fyrir starfsmenn þá finnst mér ekki vera góður bragur á því að Alþingi Íslendinga, sem samþykkti þessi lög með miklum meiri hluta þingmanna, sé með slíkt herbergi hér. Ég hef fengið afskaplega margar athugasemdir og fyrirspurnir frá fólki sem á mjög erfitt með að skilja að við gefum þessa línu út í þjóðfélagið en séum síðan með þetta svokallaða reykherbergi á vinnustað okkar og mér skilst að það sé orðið eitthvað sem menn vilji skoða þegar þeir koma í skoðunarferðir í þingið. Það er ekki góður bragur á þessu og ég legg til að við göngum í það að losa okkur við þetta herbergi.