135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu.

[10:45]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Að undanförnu hafa borist alls staðar að af á landinu um uppsagnir vegna niðurskurðar ríkisstjórnarinnar á þorskkvótanum. Þannig hafa yfir 450 einstaklingar fengið uppsagnarbréf í fiskvinnslu og 102 standa frammi fyrir tímabundnum lokunum í allt að fimm mánuði.

Niðurskurðurinn kom gríðarlega hart niður á Eyjafjarðarsvæðinu. Tvö stærstu fiskvinnslufyrirtæki svæðisins, Brim hf. og Samherji hf., urðu fyrir 7 þús. tonna skerðingu á þorskkvóta en langstærstur hluti fiskvinnslufyrirtækjanna er við Eyjafjörð. Á Siglufirði hafa um það bil 30 manns misst vinnuna vegna niðurskurðarins. Á Hjalteyri hefur allri skreiðarþurrkun verið hætt og allt að 20 manns hafa misst vinnuna hjá stærsta fyrirtækinu sem þar var starfrækt. Á Dalvík hefur öllum starfsmönnum Krækis verið sagt upp störfum eða 32. Fyrirhugaðar eru uppsagnir hjá Strýtu á Akureyri þannig að um 100 manns munu missa vinnuna á Eyjafjarðarsvæðinu öllu. Þetta eru háar tölur.

Því miður munum við enn um sinn geta gert ráð fyrir fréttum af uppsögnum um allt land vegna afleiðinga af niðurskurði af þorskkvótanum. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur lýst því yfir og viðurkennt að hinar svokölluðu mótvægisaðgerðir hafa á engan hátt dugað til að koma til móts við þær uppsagnir sem nú eiga sér stað um allt land. Reyndar varð Eyjafjarðarsvæðið nánast algjörlega út undan í hinum svokölluðu mótvægisaðgerðum og það litla sem þar hefur verið gert hefur ekki virkað sem skyldi.

Ég beini því þeirri spurningu til hæstv. sjávarútvegsráðherra: Til hvaða mótvægisaðgerða mun ríkisstjórnin grípa á Eyjafjarðarsvæðinu til að koma til móts við þessar mörgu uppsagnir?