135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu.

[10:47]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, að orðið hafa mjög alvarlegar uppsagnir víða um land, m.a. vegna minnkandi þorskaflaheimilda. Þó er ekki einhlítt að það sé aðalskýringin. Það geta verið aðrar skýringar þar að baki og auðvitað þurfa menn að fara yfir það.

Það er alveg ljóst mál í mínum huga að jafnvel þótt við mundum auka við þorskkvótann núna mundi það ekki leiða til þess að allar þær fiskverkunarstöðvar, sem nú er ýmist verið að loka eða fyrirhugað er að loka, opni aftur m.a. vegna þess að fyrirtækin eru að reyna að hagræða og draga úr tilkostnaði sínum.

Varðandi það sem hv. þingmaður taldi upp á Eyjafjarðarsvæðinu sérstaklega þá veit hann sjálfur að niðurskurður í þorskafla er ekki nema að hluta til skýringin á uppsögnum þar, þó að ég sé ekki að gera lítið úr því. Tvö af þeim fyrirtækjum sem hv. þingmaður nefndi, sem hætt hafa starfsemi eða hyggjast gera það, voru einmitt fyrirtæki í rækjuvinnslu. Við vitum að undanfarin ár hefur verið mjög alvarleg staða uppi í rækjunni. Erfiðleikar hafa verið á erlendum mörkuðum. Það er lækkandi hráefnisverð. Gengið hefur illa að veiða við þær forsendur sem eru í dag, ekki vegna þess að aflaheimildir séu ekki til staðar heldur vegna þess að hinar fjárhagslegu forsendur til að veiða rækjuna eru ekki til staðar.

Ríkisstjórnin greip til margs konar aðgerða til þess að reyna að bregðast við þeirri ákvörðun sinni að draga úr þorskaflaheimildunum. Þær ákvarðanir taka brátt gildi og eru að mörgu leyti farnar að virka. Ég hef sagt að skynsamlegt sé að fara yfir með hvaða hætti við endurskoðum þessa hluti í ljósi reynslunnar. Varðandi Eyjafjarðarsvæðið tel ég rétt að hafa það undir í þessum efnum.

Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði að skýringin á þeim uppsögnum sem átt hafa sér stað, m.a. á Eyjafjarðarsvæðinu, er að leita annars staðar, m.a. í vanda rækjuvinnslunnar. Ríkisstjórnin hefur gripið til aðgerða til að reyna að koma til móts við hagsmuni og þarfir rækjuvinnslunnar (Forseti hringir.) sem skiptir miklu máli víða um land og vonandi hefur það einhver áhrif.