135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu.

[10:50]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vakti aðeins athygli á því áðan að hluti af þeim uppsögnum sem átt hafa sér stað, stafa af þeim erfiðleikum sem hafa verið og eru því miður fyrir hendi í rækjuiðnaðinum. Ríkisstjórnin hefur gripið til margs konar aðgerða til að koma til móts við þarfir rækjuiðnaðarins. Ég beitti mér fyrir því á sínum tíma að setja niður sérstakan starfshóp sem lagði fram ákveðnar tillögur í þeim efnum sem við höfum síðan unnið eftir.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því að Byggðastofnun var gert kleift að fara í viðurhlutamiklar skuldbreytingar sem m.a. munu ná til rækjuframleiðenda og vonandi hefur það jákvæð áhrif.

Gripið hefur verið til margs konar almennra aðgerða sem ná til landsins í heild en ekki eingöngu til Eyjafjarðarsvæðisins. Eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt, höfum við sérstaklega horft til veikustu svæðanna sem hafa kannski að fáu öðru að hverfa en sjávarútvegi. En hinar almennu aðgerðir sem verið er að grípa til, bæði á vinnumarkaðssviði og með því að örva fjárfestingu, eru auðvitað ætlaðar til þess að bregðast við kreppu á Eyjafjarðarsvæðinu og víðar. (Forseti hringir.)