135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

hugmyndir um uppkaup á mjólkurkvóta.

[10:52]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er nú greinilegt að ráðherra hinna gömlu atvinnugreina er vinsæll í dag því að ég er þriðji þingmaðurinn sem beinir fyrirspurn til hans. Tilefnið eru ummæli framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálms Egilssonar, um að ríkið ætti að kaupa af bændum fjárfestingu þeirra í mjólkurkvótum upp á nærri 36 milljarða kr.

Auðvitað eru það tíðindi þegar slík hugmynd kemur fram frá Samtökum atvinnulífsins sem eru áhrifamikil samtök, líka í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins slógu af hugmyndir verkalýðshreyfingarinnar um sérstakan persónuafslátt til lágtekjufólks. Eftir að þau höfðu gefið línuna tók hæstv. forsætisráðherra af skarið og sló málið af fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Það er því ástæða til að taka það alvarlega sem kemur úr herbúðum Samtaka atvinnulífsins.

Ég átta mig hins vegar ekki alveg á því hvað vakir fyrir Samtökum atvinnulífsins með þessari tillögu. Ég vildi gjarnan — vegna þess að fram kom í þinginu í gær að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi tekið undir hugmyndina og talið hana athyglisverða. Miðað við það hefur hann tekið betur í þessa hugmynd en álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það hlýtur þá að þýða að hann ætlar að taka hugmyndina alvarlega og til skoðunar.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er á döfinni? Er ríkisstjórnin að hugsa um að fella niður stuðning við mjólkuriðnaðinn? Er ríkisstjórnin að hugsa um að opna fyrir innflutning á unnum afurðum mjólkur- og kjötvöru sem framleiddar eru hérlendis? Er ríkisstjórnin að hugsa um að loka fyrir það atvinnufrelsi sem stjórnarskráin hefur veitt hverjum manni, að geta haslað sér völl í landbúnaði? Með því væri hún að vissu leyti að grafa undan fjárfestingum manna í mjólkurkvótum sem (Forseti hringir.) byggðust á því að hér væri svipað kerfi og í sjávarútvegi, sem tókst að afstýra sem betur fer.