135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

hugmyndir um uppkaup á mjólkurkvóta.

[10:54]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þótt ég geti átt það til að tala mjög hratt úr ræðustólnum þegar mikið liggur við þá held ég að ég geti ekki ráðið við að svara öllum þeim viðurhlutamiklu spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín. Það sem hv. þingmaður vakti fyrst og fremst athygli á voru ummæli framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á fundi Landssambands kúabænda sem haldinn var í síðustu viku. Ég sat þann fund og kom þar margt mjög athyglisvert fram.

Hugmynd framkvæmdastjórans vakti auðvitað mjög mikla athygli. Hann tók reyndar mjög skýrt fram að ekki væri um tillögu að ræða heldur hugmynd sem hann vildi kasta fram og sem menn gætu velt fyrir sér næstu árin.

Ég gæti notað orðalag hv. þingmanns um að ég hafi tekið þessi mál alvarlega, rétt eins og ég tók álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna alvarlega. Mér finnst auðvitað sjálfsagt í þessu sambandi, þegar fram kemur hugmynd af þessu tagi frá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að við lokum ekki öllum dyrum. Við skoðum hana opnum huga alveg eins og formaður Bændasamtaka Íslands sagði. Þetta er hins vegar flókið mál og á því eru margar hliðar, eins og mér fannst hv. þingmaður vera að velta upp með spurningum sínum, sem menn þurfa þá að skoða rækilega.

Það er ekki verið að tala um að hverfa frá stuðningi við landbúnaðinn. Ég veit að hv. þingmanni er alveg kunnugt um sjónarmið mín í þessum efnum. Ég tel að þvert á móti eigi að halda áfram stuðningi við íslenskan landbúnað og ég hygg að um það sé mjög breið samstaða.

Tímabil þessa mjólkursamnings er hálfnað og auðvitað er ekkert að því að ræða allar hugmyndir sem fram koma, þessa hugmynd eins og margar aðrar.

Mjög mörg álitamál eru uppi (Gripið fram í.) í þessum efnum, m.a. mál sem snúa að framtíðinni. Það er ekki bara það sem snýr að nútíðinni og þeim sem nú eru í mjólkurframleiðslu, heldur líka að framtíðinni. Á hugmyndinni eru margir vankantar en hún verðskuldar engu að síður að við förum aðeins yfir (Forseti hringir.) hana. Ég tek með því ekki neina efnislega afstöðu til málsins. Ég segi einfaldlega að við eigum að ræða hugmyndina eins og svo margar aðrar.