135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

launamál kennara.

[10:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra hélt fund með flokksmönnum sínum á dögunum og fór þar mikinn. Hann gaf m.a. hæstv. fjármálaráðherra ýmiss konar leiðsögn í sambandi við uppgjör fyrirtækja í evrum.

En það sem ég ætla þó að gera að umtalsefni hér eru ummæli hæstv. menntamálaráðherra um launamál kennara. Hæstv. menntamálaráðherra var þar ekki að skafa utan af hlutunum og sagði m.a., með leyfi forseta:

„Ég held að það fyrsta sem við munum og verðum að segja er að kennarar hafa dregist aftur úr, ég held að það sé alveg ljóst. Ef við ætlum að fá gott fólk inn í skólana þá þurfa að vera vel launuð störf líka.“ Og síðan: „Þess vegna þurfum að hækka laun kennara og styrkja kennaramenntunina sem slíka.“ Og enn síðar sagði ráðherrann: „Og ég ætla ekki allt í einu núna í ljósi aðdraganda“ — þar er væntanlega átt við aðdraganda kjarasamninga — „að fara að halda kjafti. Það er mikilvægt að laun kennara hækki.“

Hér er töluð íslenska. Þetta er snöfurmannlega og vel mælt. Nú vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þessa leiðsögn varaformanns Sjálfstæðisflokksins: Er þá ekki alveg ljóst að þarna er talað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) í heild sinni? Var ekki hæstv. menntamálaráðherra að gefa þarna upp afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessa máls? Er þá ekki ljóst að fjármálaráðherra, í samskiptum sínum við sveitarfélög sem greiða laun leikskóla- og grunnskólakennara og sem viðsemjandi framhaldsskólakennara, hljóti að fylgja þessari stefnumörkun og undirbúa verulegar kjarabætur til kennara? Má ekki treysta því að vinstri höndin viti hvað sú hægri gjörir, að ríkisstjórnin tali einum rómi í þessu máli og að fyrir liggi ákvörðun eða niðurstaða um að ekkert annað en umtalsverð launahækkun til kennara komi til greina?

Ég er hjartanlega sammála því sem menntamálaráðherra sagði þarna og bíð spenntur eftir því að heyra hvort hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) staðfesti nú ekki héðan úr ræðustóli að kennarar eigi (Forseti hringir.) í vændum umtalsverða launahækkun.